Utanríkisstefna Íslands og friðarferlið í Mið-Austurlöndum
Í aðgerðaráætlun utanríkisráðuneytisins fyrir Mið-Austurlönd fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir þremur áherslumálum; aukinni mannúðar- og þróunaraðstoð á herteknu svæðunum, þ.m.t. Gaza og Vesturbakkanum, sérstakri aðstoð vegna flóttamannavanda Íraka og eflingu diplómatískra tengsla Íslands við svæðið og markvissri stefnu á alþjóðavettvangi.
Hér fyrir neðan er stutt yfirlit yfir það sem gert hefur verið frá maí 2007. Þá er neðst samantekt um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við aðgerðum Ísraela á Gaza og ástandinu þar um áramótin 2008-2009.
Pólitísk samskipti
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur heimsótt Ísrael og Palestínu tvívegis frá því að hún tók við embætti í maí 2007. Hún hefur heimsótt öll nágrannaríkin utan Líbanon og hitt ráðamenn í Ísrael og Arabaheiminum margsinnis í tengslum við alþjóðlega fundi, m.a. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna síðustu tvö ár.
Utanríkisráðherra fundaði með ísraelskum, palestínskum og jórdönskum ráðamönnum í átta daga heimsókn til svæðisins í júlí 2007. Þá hitti hún m.a. Shimon Peres, forseta, og Tzipi Livni, utanríkisráðherra, og þingmenn Knessetsins í Ísrael og heimsótti Sderot, sem er ísraelskur bær sem hefur ítrekað orðið fyrir Qassam-loftflaugaárásum frá Gaza. Hún heimsótti einnig Mahmoud Abbas, forseta Palestínu og Salam Fayyad, forsætis- og utanríkisráðherra, í Ramallah og átti fundi með öðrum talsmönnum Palestínumanna, svo sem Hanan Ashrawi og Mustafa Bargouti.
Ráðherra fór í opinbera heimsókn til Egyptalands í janúar 2008 og fundaði þar um málefni svæðisins, sérstaklega Ísrael-Palestínu, með utanríkisráðherra Egypta, Ahmed Aboul Gheit og framkvæmdastjóra Arababandalagsins, Amre Moussa.
Forseti Palestínu, Mahmoud Abbas, heimsótti Ísland í apríl 2008 á leið sinni til viðræðna í Washington og fundaði með utanríkisráðherra. Auk þess áttu Ahmed Qureia og Saeb Erakat, aðalsamningamenn, fund með utanríkismálanefnd Alþingis. Tengsl við palestínska ráðamenn á hæsta stigi hafa skapað tækifæri til að taka þátt í umræðu um frið í Mið-Austurlöndum og leggja áherslu á þau málefni sem Ísland vill halda sérstaklega á lofti, t.d. mikilvægi þess að friðsamleg lausn náist sem fyrst og mikilvægi þátttöku kvenna í friðarviðræðum (þ.m.t. ályktun öryggisráðs S.þ. nr. 1325).
Fulltrúi Íslands gagnvart palestínskum stjórnvöldum var skipaður með formlegum hætti í apríl 2008 og bréf þess efnis afhent Mahmoud Abbas. Fulltrúinn, Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra, fór með ráðherra til fundar við utanríkisráðherra Palestínsku heimastjórnarinnar, Riad Al-Malki í Ramallah í ágúst s.l. Á alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins hefur verið staða sérfræðings í málefnum Mið-Austurlanda síðan 2007.
Ingibjörg Sólrún fór í vinnuheimsókn til Damaskus í júní 2008, þar sem hún fundaði með Bashar al-Assad, Sýrlandsforseta, aðallega um friðarferlið í Mið-Austurlöndum, þ.m.t. um Gólanhæðir. Hún heimsótti höfuðstöðvar flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna í landinu, þar sem hún kynnti sér stöðu þess stóra hóps flóttamanna frá Írak sem hafa sest að í landinu eða búa í flóttamannabúðum á landamærum landanna.
Framkvæmdastjóri Arababandalagsins, Amre Moussa, heimsótti Ísland í september s.l. á leið sinni á allsherjarþing S.þ. Hann átti fund með utanríkisráðherra og ávarpaði opinn fund í Háskóla Íslands.
Friðarráð ísraelskra og palestínskra kvenna
Ingibjörg Sólrún hefur lagt mikla áherslu á aðkomu kvenna að friðarferlum og hefur starfað með alþjóðlegu friðarráði ísraelskra og palestínskra kvenna eða International Women’s Commission for a Just and Sustainable Palestinian-Israeli Peace (IWC), þar sem hún er heiðursfélagi.
Ingibjörg Sólrún var sérstakur gestur á fundi IWC sem fór fram í Betlehem í ágúst 2008. Í ferðinni átti hún einnig fundi með utanríkisráðherrum Ísraels, Tzipi Livni, og Palestínsku heimastjórnarinnar, Riad Al-Malki.
Tveimur fulltrúum IWC var boðið til Íslands til fundar með ráðherra í febrúar. Auk þess var haldinn mjög fjölsóttur opinn umræðufundur í því skyni að auka almenna vitund um starf samtakanna, friðarferlið og ástandið í Palestínu og Ísrael.
Ísland hefur lagt áherslu á aðkomu kvenna að friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs síðustu misseri, bæði með formlegum og óformlegum hætti. Utanríkisráðherra hefur talað máli IWC á öllum fundum sínum með ráðamönnum á svæðinu, bandarískum, rússneskum og evrópskum stasfssystkinum og á fundi sem hún átti með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í febrúar s.l. en eitt aðalefni fundarins var friðarferlið og ástandið í Palestínu.
Dæmi um þessa áherslu á fjölþjóðlegum vettvangi er ræða sem fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York flutti fyrir öryggisráðinu 18. desember s.l. í opinni umræðu um stöðuna í Mið-Austurlöndum. Ræðuna má nálgast á heimasíðu ráðuneytisins (/frettaefni/Forsiduraedur/nr/4706).
Aukin mannúðar- og þróunaraðstoð til herteknu svæðanna
Í aðgerðaráætlun utanríkisráðuneytisins fyrir Mið-Austurlönd fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir að heildarframlög á árinu til mannúðar- og þróunaraðstoðar næmu 1 milljón USD, sem eru rúmlega 120 milljónir króna m.v. núverandi gengi. Samtals voru valfrjáls framlög Íslands 600 þús. USD til undirstofnanna S.þ. vegna verkefna á herteknu svæðunum. Til frjálsra félagasamtaka var framlag Íslands 200 þús. USD vegna verkefna á herteknu svæðunum. Af þeim runnu 150 þús. USD til kaupa á færanlegri sjúkrastöð og 50 þús. USD til styrktar reksturs Women’s Center for Legal Aid and Counselling (WCLAC).
Íslenskir friðargæsluliðar hafa starfað undanfarin misseri hjá Palestínuflóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, Barnahjálp SÞ og Flóttamannahjálp SÞ í Mið-Austurlöndum. Þessar stöður eru fjármagnaðar af Íslensku friðargæslunni.
Íraskir flóttamenn
Á árinu tók Ísland á móti 29 flóttamönnum, konum og börnum, frá Al Waleed flóttamannabúðunum á landamærum Íraks og Sýrlands. Settist flóttafólkið að á Akranesi. Sjá frekar um þetta starf flóttamannanefndar á vef félagsmálaráðuneytisins:
http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3822
Viðbrögð við aðgerðum og ástandinu á Gaza um áramót 2008-2009
Þar sem vopnahlé Ísraels og Hamas var ekki endurnýjað rann það út 18. desember s.l. Í kjölfarið, á aðfangadag, hófust eldflaugaárásir á Suður-Ísrael frá Gaza. Ísraelsher brást við með stórfeldum loftárásum á Gaza þann 27. desember og féllu á þriðja hundrað Palestínumenn fyrstu klukkustundirnar í þessum árásum. Undirbúningur aðgerðanna hafði staðið yfir á annað ár hjá hernum. Þann 3. janúar sendi Ísraelsher skriðdrekasveitir inn í Gaza og klauf Gaza í tvennt með því að taka yfir hernaðarlínu sem nær að Miðjarðarhafsströndinni. Frá því er aðgerðir hófumst hafa um 900 Palestínumenn fallið.
Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað fjallað um ástandið á Gaza og gefið yfirlýsingar um málið. Það hefur verið rætt í ríkisstjórn og utanríkisráðherra hefur, fyrir hönd stjórnvalda, tjáð afstöðu Íslands:
- 27. desember sendi utanríkisráðherra frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagði aðgerðir Ísraelshers óverjandi og sagði nauðsynlegt að öryggisráð SÞ taki málið fyrir.
- Áður en innrás landhersins hófst, nánar tiltekið á gamlársdag 31. desember sendi utanríkisráðherra Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels bréf, þar sem hún, með vísan til fyrri samtala þeirra, fordæmdi hernaðaraðgerðirnar og sagði þær aldrei geta leitt til viðvarandi friðar og öryggis fyrir þjóðirnar á svæðinu. Í bréfinu var Ísrael eindregið hvatt til að fallast á vopnahléstillögu Evrópusambandsins sem þá lá fyrir.
- Sama dag hvatti utanríkisráðherra til að árásum Ísraelshers yrði hætt þegar í stað og að friðarviðræður hæfust með þátttöku Friðarráðs ísraelskra og palestínskra kvenna.
- Þann 4. janúar sendi ráðherra svo frá sér yfirlýsingu þar sem innrás Ísraelshers á Gazaströndina er fordæmd. Hún geti aldrei annað en beinst að saklausum íbúum svæðisins. Svo harkaleg beiting aflsmunar setji þá kröfu á herðar alþjóðasamfélaginu að ganga á milli og senda friðargæslulið inn á svæðið.
Varafastafulltrúi Íslands hjá SÞ í New York flutti ræðu fyrir hönd Íslands á opnum fundi öryggisráðs SÞ þann 7. janúar, þar sem m.a. mannfall óbreyttra borgara var fordæmt, sjá: /frettaefni/Forsiduraedur/nr/4718 og varafastafulltrúi Íslands hjá SÞ í Genf flutti ræðu fyrir hönd Íslands á fundi mannréttindaráðs SÞ þann 9. janúar, þar sem m.a. árásir á SÞ og starfslið þeirra var fordæmt, sjá: /frettaefni/Forsiduraedur/nr/4722
Íslensk stjórnvöld ákváðu í byrjun árs að verja 12 milljónum króna (100 þús. USD) til neyðaraðstoðar vegna ástandsins, sem veitt er með milligöngu Rauða kross Íslands og Palestínuflóttamannahjálpar SÞ, UNRWA..
Texti yfirlýsinganna:
27. desember 2008:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra telur hernaðaraðgerðir Ísraels á Gazaströndinni í dag óverjandi. Þó að Ísrael standi frammi fyrir öryggisógn og að ákvörðun Hamas um að segja sig fra vopnahléi sé röng, verði viðbrögð að vera í samræmi við hættu eins og alþjóðleg mannúðarlög krefjast.
Alþjóðasamfélagið getur ekki lengur látið óátalið að mannréttindi og alþjóðlegar skuldbindingar séu fótum troðnar á Gazasvæðinu. Ísland styður að málið verði tekið til umfjöllunar á vettvangi öryggisráðsins og að deiluaðilar verði kallaðir til raunverulegrar ábyrgðar og látnir standa við fyrirheit sín.
31. desember 2008
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og heiðursfélagi Friðarráðs palestínskra og ísraelskra kvenna, hvetur almenning, ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir, fjölmiðla, alþjóðlega verkalýðshreyfingu og aðra til að gefa gaum eftirfarandi yfirlýsingu Friðarráðsins um hernaðaðaðgerðir Ísraela á Gaza-svæðinu. Ingibjörg Sólrún tekur undir kröfuna um að árásum Ísraelshers verði þegar í stað hætt og að friðarviðræður verði hafnar að nýju þegar í stað með þátttöku Friðarráðsins.
Tveir fulltrúar Friðarráðsins, frá Ísrael og Palestínu, komu til Íslands í febrúar sl. til að kynna stefnu ráðsins.
FRÉTTATILKYNNING FRÁ FRIÐARRÁÐI PALESTÍNSKRA OG ÍSRAELSKRA KVENNA
Friðarráð ísraelskra og palestínskra kvenna (IWC) krefst þess að árásum Ísraelshers á Gaza-svæðinu, sem þegar hafa kostað hundruð mannslífa, verði hætt án tafar.
Þetta blóðbað getur aðeins orðið til þess að ýta undir frekari átök og gerir að engu veikar vonir um frið milli Ísraelsmanna og Palestínumanna.
Friðarráðið hvetur alþjóðasamfélagið, og einkum Kvartettinn, til að senda þegar í stað alþjóðlegt herlið á vettvang til að binda enda á þessa firru, vernda saklausa borgara og draga úr hinu slæma ástandi mannúðarmála á Gaza-svæðinu.
Friðarráðið fer þess einnig á leit við Kvartettinn, einkum næstu ríkisstjórn Bandaríkjanna, að hann þrýsti á um að friðarviðræður, byggðar á friðartillögu Arababandalagsins, verði hafnar að nýju þegar í stað sem er eina leiðin til að binda enda á hernámið og koma á varanlegum friði milli Ísraels og Palestínu, sem og á svæðinu öllu.
4. janúar 2009
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra fordæmir innrás Ísraelshers á Gazaströndina sem getur aldrei annað en beinst að saklausum íbúum svæðisins, sem eru varnarlausir, innilokaðir og hafa skipulega verið sviptir aðgangi að nauðþurftum um langt skeið. Svo harkaleg beiting aflsmunar setur þá kröfu á herðar alþjóðasamfélaginu að ganga á milli og senda friðargæslulið inn á svæðið.
Utanríkisráðherra harmar skort á samstöðu í öryggisráðinu í málinu. Öryggisráðið ber ábyrgð á heimsfrið og öryggi og mannúðarástandið í Gaza krefst þess að alþjóðasamfélagið, með öryggisráðið í fararbroddi, axli þá ábyrgð sem alþjóðalög segja til um.