Fjölsótt jafnréttisþing
Mikill áhugi er á jafnréttisþinginu sem fram fer á Nordica Hilton í Reykjavík á morgun og hafa hátt í fimmhundruð manns hafa skráð sig til þátttöku. Félags- og tryggingamálaráðherra boðar til þingsins í samræmi við ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Á þinginu verður fjallað um fjölmargar hliðar jafnréttisbaráttunnar, svo sem launajafnrétti kynjanna, kynbundið ofbeldi, jafnrétti í atvinnulífi, karla og jafnrétti og jafnréttisstarf í skólum. Auk þess verða drög að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum kynnt á þinginu, en tilgangur þess er meðal annars að gefa almenningi og fulltrúum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka kost á að skila inn hugmyndum og ábendingum vegna framkvæmdaáætlunarinnar.