Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2009 Innviðaráðuneytið

Konur skipa meirihluta Umferðarráðs

Konur skipa nú í fyrsta skipti meirihluta í Umferðrráði. Af 23 aðalfulltrúum eru 13 konur. Karlinn Karl V. Matthíasson alþingismaður er formaður og konan Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, er varaformaður.

Jafnréttisþing 2009
Jafnréttisþing 2009

Á síðasta ári var hlutfall kvenna í 45 nefndum, ráðum og stjórnum á vegum samgönguráðuneytisins 24% á móti 76% hlutfalli karla. Í skýrslu félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð var fram á jafnréttisþingi í dag kemur fram að hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum alls stjórnarráðsins jókst úr 33% árið 2006 í 36% 2007. Á sama tíma jókst hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum hjá samgönguráðuneytinu úr 16% í 20% en var á síðasta ári komið í 24% eins og getið er að framan.

Þá má geta þess að Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði í dag fulltrúa í stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Í stjórninni sátu áður þrír karlar en Samband íslenskra sveitarfélaga skipar tvo fulltrúa og ráðherra einn. Ráðherra skipaði Ingileif Ástvaldsdóttur sem aðalmann og til vara Stefaníu Traustadóttur.

Einnig hefur ráðherra skipað konu í stað karls í eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga en í henni sitja nú Sævar Þór Sigurgeirsson, Hafdís Karlsdóttir og Þórður Skúlason.

Hlutfall kvenna mjög misjafnt

Sé litið á einstakar nefndir, stjórnir eða ráð í samgönguráðuneytinu er hlutfallið nokkuð ólíkt, allt frá því að vera eingöngu karlar eins og tilfellið er varðandi samgönguráð og úrskurðarnefnd siglingamála. Hlutfall kvenna fer hæst í 50% til dæmis hjá flugráði og starfshópi um landshlutasamtök sveitarfélaga og í 60% í stjórn Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. svo nokkuð sé nefnt.

Nokkur munur er á aðferð við skipan nefnda og ráða, ráðherra skipar í sum þeirra án tilnefningar, leitar tilnefninga frá hagsmunaaðilum í aðrar og svo framvegis. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gera ráð fyrir að við tilnefningu í nefnd eða ráð skuli aðilar tilnefna til jafns karla og konur. Segir svo í 15. grein laganna:

,,Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.”

Unnið markvisst að jafnrétti

Með þessum ákvæðum er skipunaraðila gefið svigrúm til að gæta að jöfnu kynahlutfalli. Komið hefur fyrir að tilnefningaraðilar virða ekki þessi fyrir mæli laganna og hefur samgönguráðuneytið sett sér þá stefnu í jafnréttisáætlun að vinna markvisst að því að jafna fjölda kvenna og karla í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Á það jafnt við þegar ráðuneytið skipar eða tilnefnir fulltrúa lögum samkvæmt eða að beiðni utanaðkomandi aðila og við úthlutun verkefna og skipan í vinnu- eða starfshópa innan ráðuneytisins.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta