Skýrsla um mannréttindafræðslu í skólum
Þann 10. desember sl. varð mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 60 ára. Á grundvelli yfirlýsingarinnar hafa þjóðir heims fullgilt mannréttindasamninga sem hafa verið fyrirmynd mannréttindaákvæða í stjórnarskrám ríkjanna. Ísland er eitt þeirra ríkja.
Í nýjum lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla er velferð barna og ungmenna skilgreind sem grundvallaratriði í starfi skóla. Í markmiðsgreinum þessara laga kemur fram að hlutverk skólanna sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Áhersla á velferð nemenda, alþjóðlegt samstarf um borgaravitund og mannréttindi í menntun og ný framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna um eflingu mannréttindafræðslu bera vitni um þá vitundarvakningu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum um mikilvægi þess að nemendur fái tækifæri til að styrkja sjálfa sig til að vera betur undir það búnir að takast á við áskoranir daglegs lífs í sífellt breytilegum og flóknari heimi.
Með hliðsjón af þessu og til þess að auðvelda skólum að takast á við þennan mikilvæga þátt í menntun barna og ungmenna hefur starfshópur á vegum menntamálaráðuneytis komið fram með tillögur til eflingar mannréttindafræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Skýrsla starfshópsins er nú aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins. Tillögunum, sem finna má í skýrslunni, er fyrst og fremst ætlað að vera hugmyndagefandi, er þar lögð áhersla á samstarf innan skólans og við nærsamfélagið á heildrænan hátt.
-
Skýrsla um mannréttindafræðslu í skólum (PDF - 695KB)