Auknar kröfur um gæði endurskoðunar
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. janúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Ný lög um endurskoðendur nr. 79/2008 tóku gildi 1. janúar 2009. Voru lögin sett til innleiðingar á 8. félagatilskipun ESB en kallaði hún á umfangsmiklar breytingar á eldri lögum um endurskoðendur.
Markmið tilskipunarinnar er að kröfur og gæði endurskoðunar verði sambærileg á EES-svæðinu og að auka tiltrú fjárfesta á endurskoðuðum ársreikningum.
Í lögunum er gerðar auknar kröfur varðandi óhæði endurskoðenda og þá sérstaklega endurskoðenda sem endurskoða einingar tengdum almannahagsmunum t.d. banka, vátryggingafélög, lífeyrissjóði og félög með verðbréf sín skráð á verðbréfamarkaði. Skulu endurskoðendur þessara eininga á hverju ári staðfesta skriflega óhæði sitt gagnvart hinni endurskoðuðu einingu og skulu þeir birta á vefsetri sínu skýrslu um gagnsæi. Endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun einingar tengdri almannahagsmunum skal taka sér hlé frá endurskoðun þeirrar einingar í a.m.k. tvö ár samfellt eigi síðar en sjö árum eftir að honum var falið verkið.
Ákvæði um gæðaeftirlit hefur ekki áður verið bundið í lög en með nýju lögunum skulu nú endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á sex ára fresti en hjá þeim sem annast endurskoðun eininga tengdum almannahagsmunum skal gæðaeftirlit fara fram á þriggja ára fresti. Upplýsingar um heildarniðurstöðu gæðaeftirlitsins skal endurskoðendaráð birta árlega.
Með lögunum er skýrt um það kveðið að öðrum en endurskoðendum sé ekki heimilt að notað heitið endurskoðandi í starfsheiti sínu nema að hann uppfylli þeim kröfum sem getur um í lögunum. Þær kröfur eru að ýmsu leyti ríkari en í eldri lögum og má nefna að ítarlegri kröfur eru gerðar varðandi endurmenntun endurskoðenda en hún skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili. Einnig skal endurskoðandi fyrir 15. janúar ár hvert senda Félagi löggiltra endurskoðenda staðfestingu um að hann hafi í gildi starfsábyrgðartryggingu en með nýju lögunum hefur Félag löggiltra endurskoðenda fengið meira hlutverk í að halda utan um réttindi endurskoðenda. Öllum endurskoðendum er nú skylt að vera félagsmenn í Félagi löggiltra endurskoðenda frá og með gildistöku laganna.
Uppfylli endurskoðandi ekki skilyrðum laganna skal hann án tafar leggja inn réttindi sín og er ábyrgðin hjá endurskoðandanum sjálfum að tilkynna það til endurskoðendaráðs.