Varðliðar umhverfisins 2009
Boðað er til verkefnasamkeppni um umhverfismál á meðal grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Keppnin kallast Varðliðar umhverfisins en umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur standa að henni.
Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði. Á síðasta ári voru nemendur úr Lýsuhólsskóla og Fossvogsskóla útnefndir varðliðar umhverfisins.
Skilafrestur
Skilafrestur verkefna er til 27. mars 2009 og þau skal senda umhverfisráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins”. Dómnefnd skipuð fulltrúum umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur velur bestu verkefnin fyrir Dag umhverfisins 25. apríl 2009.
Verkefnin
Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ritgerðir, ljósmyndir, ljóð, veggspjöld, bæklingar, myndbönd og hljóðverk. Í stuttu máli er fólki frjálst að skila inn verkefnum í hvaða formi sem er svo lengi sem umfjöllunarefni þeirra eru umhverfismál í víðum skilningi þess orðs. Þátttakendur geta í verkefnum sínum fjallað um umhverfismál í sínu nánasta umhverfi, á landsvísu eða heimsvísu. Umfjöllunarefnið getur t.d. verið loftslagsbreytingar, röskun eða verndun búsvæða, jarðvegseyðing, endurheimt vistkerfa, verndun náttúruauðlinda, endurvinnsla og endurnýting úrgangs.
Athygli er vakin á því að verkefnin þurfa ekki að vera unnin sérstaklega fyrir samkeppnina heldur er vonast til að hún geti gefið nemendum og kennurum tækifæri til að koma á framfæri verkefnum sem þegar hafa verið unnin í skólum.
Tengiliðir
Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum um keppnina með tölvupósti til:
Guðmundar Harðar Guðmundssonar – [email protected]
Helenu Óladóttur – [email protected]
Orra Páls Jóhannssonar – [email protected]