Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 2/2009
Fjármálaráðuneytið birtir í dag endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir árin 2008 til 2010 í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn - vetrarskýrsla 2009. Fjallað er um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála 2008-2010 á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Þá eru breytingar frá haustspá ráðuneytisins útskýrðar. Mun meiri óvissa ríkir en áður um flesta þá þætti sem þjóðhagsspáin fjallar um. Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:
Íslenskt efnahagslíf varð fyrir miklu áfalli þegar bankakerfið fór í þrot í alþjóðlegri fjármálakreppu. Í kjölfarið hafa stjórnvöld tekið að fylgja aðgerðaáætlun í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem miðast við að efnahagslífið komist hratt og örugglega út úr núverandi erfiðleikum.
Hagvöxtur. Í grunnspá fjármálaráðuneytisins er áætlað að hagvöxtur hafi numið -0,1% árið 2008. Árið 2009 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 9,6%, þrátt fyrir áframhaldandi viðsnúning í þróun utanríkisviðskipta og aukinn þorskkvóta. Skýrist það ma. af minni einkaneyslu og samneyslu. Þá er gert ráð fyrir minni umsvifum við uppbygginu álvers í Helguvík á þessu ári en ætlað var, og munu umsvifin færast nokkuð yfir á næsta ár. Því er spáð að landsframleiðsla standi í stað árið 2010, þegar einkaneysla dregst áfram saman.
Viðskiptajöfnuður. Ætlað er að mikill viðsnúningur í viðskiptajöfnuði muni styðja við endurreisn gjaldeyrismarkaðins á næstu árum. Viðskiptahallinn nam rúmum 22 prósentum af landsframleiðslu árið 2008 en snýst í afgang á þessu ári sem nemur 6,1 prósenti af landsframleiðslu. Árið 2010 er reiknað með að hann verði áfram jákvæður eða um 5,7 prósent.
Atvinnuleysi. Atvinnuleysi árið 2008 varð nokkru meira en í haustspá, eða 1,7% af vinnuafli og er því spáð að það aukist fram eftir árinu 2009, og verða að meðaltali 7,8% það ár. Árið 2010 er gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði 8,6% af vinnuafli en byrji að ganga niður á árinu.
Verðbólga. Verðbólga árið 2008 var 12,4 prósent og liggur orsökin á aukinni verðbólgu í lækkun á gengi krónunnar. Áætlað er að verðbólga verði 13,1 prósent árið 2009, sem er aukning um 7,4 prósent frá haustspá. Hinsvegar er ætlaða að verðbólga verði að meðaltali 2,7 prósent árið 2010 og á því ári náist 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Rekstur ríkissjóðs. Árið 2008, er áætlað að tekjuafkoma ríkissjóðs nemi -1,5% af landsframleiðslu þegar nokkrir gjaldaliðir hækka frá fyrri spá á meðan aðrir lækka. Spáð er að afkoma ríkissjóðs snúist í mikinn halla árið 2009, eða um 12,3% af landsframleiðslu. Miðað við það mun ríkissjóður hafa umtalsverð sveiflujafnandi áhrif þegar þungi niðursveiflunnar er mestur. Í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að hallinn minnki árið 2010 og verði 10,1% af landsframleiðslu. Miðað er við að Seðlabankinn fylgi aðhaldssamri peningastjórn þar til gengi krónunnar er aftur komið á flot og skýr merki eru um að jafnvægi hafi myndast á gjaldeyrismarkaði.
Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.
- Þjóðarbúskapurinn - vetrarskýrskýrsla 2009 (PDF 2255K)
Fjármálaráðuneytinu, 20. janúar 2009