Vinnumarkaður á fjórða ársfjórðungi 2008
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. janúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar fyrir 4. ársfjórðung nýliðins árs kemur fram að þrátt fyrir það að atvinnuleysi hafi vaxið mjög meðan á könnuninni stóð hafði lítil breyting orðið á atvinnuþátttökuhlutfalli, þ.e. hlutfalli þeirra sem eru starfandi eða atvinnulausir af fjölda fólks á starfsaldri.
Sá hópur stækkaði um 1,7% frá fyrra ári á meðan vinnuafli fjölgaði um 1,4%. Atvinnuþátttökuhlutfallið var 81,5% á síðasta ársfjórðungi ársins, einungis 0,2% lægra en árið áður. Því er ekki hægt að merkja að samdrátturinn í efnahagslífinu sé enn sem komið er farinn að leiða til þess að fólk hverfi af vinnumarkaði. Þó kom í ljós að atvinnuþátttaka yngsta aldurshópsins, þeirra á aldrinum 16-24 ára, var tekin að minnka nokkuð meðan þátttaka eldri aldurshópa var enn að aukast.
Þekkt er að atvinnuþátttakan er langbreytilegust hjá yngsta aldursflokknum. Frá því að Hagstofan tók að gera þessar kannanir hefur atvinnuþátttaka þeirra sveiflast um yfir 11 prósentur á fyrsta ársfjórðungi og 9 á þeim fjórða. Sveiflan er mun minni á öðrum og þriðja fjórðungi. Atvinnuþátttaka þeirra var 63,5% á fyrsta ársfjórðungi 2004 en 74,9% árið 2007. Heildarfjöldi fólks á aldrinum 16-24 ára er nú um 40 þúsund og 10 prósentustiga minni atvinnuþátttaka þeirra samsvarar um 4.000 manns. Miðað við mikla skráningu fólks í skóla nú um áramót er ekki ólíklegt að sá fjöldi hverfi af vinnumarkaði á 1. ársfjórðungi 2009 og að það hafi áhrif til að minnka heildaratvinnuþátttöku um 1,5%.
Í könnuninni er fjölgun atvinnulausra á fjórða ársfjórðungi frá fyrra ári talin vera 3.900 manns og samtals voru 7.400 atvinnulausir í ársfjórðungnum. Skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun voru hins vegar 2.500 við upphaf 4. ársfjórðungs en nær 9.000 við lok hans. Mat Hagstofu er því nærri 6.400 meðalfjölda skráðra atvinnulausra á fjórða ársfjórðungi. Starfandi fækkaði um 1.300 frá fyrra ári.
Vinnutími dróst saman, sem er vísbending um að dregið hafi úr yfirvinnu og að fólk í hlutastörfum vinni skemur. Vinnutíminn dróst saman um 3,7% í heild en um 5,2% hjá fólki í hlutastarfi meðan fækkun vinnustunda nam 2,6% hjá fólki í fullu starfi. Þegar allt er dregið saman minnkaði vinnumagn (sem hér er reiknað sem margfeldi allra starfandi og meðalvinnutíma) saman um 4,4% milli ára á fjórða ársfjórðungi. Til samanburðar má nefna að samdráttur vinnumagns var 14,2% milli 3. og 4. ársfjórðungs 2008, sem er mun meira en áður hefur sést.