Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2009 Matvælaráðuneytið

Þak sett á innheimtukostnað

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra undirritaði í dag reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar sem öðlast mun gildi 1. febrúar n.k. Kjarni reglugerðarinnar er að sett er þak á þá fjárhæð sem krefja má skuldara um við innheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi.

Reglugerðin felur í sér talsverða lækkun miðað við gildandi gjaldskrár innheimtuaðila en þar til nú hefur ekki verið kveðið á um hámarkskostnað sem leyfilegt er að innheimta hjá skuldara vegna innheimtu.

Þakið sem nú er sett á innheimtukostnað hefur í för með sér að aðeins má taka 900 kr. fyrir skyldubundna innheimtuviðvörun til einstaklinga frá innheimtuaðila, m.a. lögmanni, eftir gjalddaga kröfu (ellegar eindaga sem síðar er tilgreindur). Fyrir valfrjáls milliinnheimtubréf má taka mismunandi gjöld eftir höfuðstól kröfu, lægst fyrir lágar kröfur, þ.e. 1.250 kr. en hærri fjárhæð eða allt að 5.500 kr. fyrir hærri kröfur. Sömu takmörk eru á greiðslu skuldara fyrir fyrstu og aðra ítrekun milliinnheimtubréfs.

Þá felst mikilvæg réttarbót í því að skuldari á rétt á að fá innheimtuviðvörun gegn vægu gjaldi eftir gjalddaga eða tilgreinds eindaga í stað þess að löginnheimta geti hafist strax eftir gjalddaga, t.d. með greiðsluáskorun á grundvelli aðfararlaga með háum kostnaði. -

Reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar byggir á innheimtulögum nr. 95/2008 er öðluðust gildi 1. janúar sl. Í lögunum og reglugerðinni er m.a. kveðið á um góða innheimtuhætti þannig að ekki má t.d. beita skuldara óhæfilegum þrýstingi eða valda honum óþarfa tjóni eða óþægindum.

 

Viðskiptaráðuneytinu 21. janúar 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta