Flugskóli Keilis fær nýjar kennsluvélar
Samgöngu- og öryggisskóli Keilis flugakademíu á Keflavíkurflugvelli tók í dag í notkun tvær nýjar kennsluflugvélar og um leið fór fram skólasetning næsta hóps í einkaflugnámi sem fer fram með fjarkennslu. Í skólanum eru kenndar ýmsar greinar sem tengjast flugi og flugþjónustu.
Við athöfnina í dag flutti Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri samgönguskólans, ávarp og Kári Kárason skólastjóri sagði frá kennsluvélunum nýju sem eru af gerðinni Diamond. Tvær vélar eru þegar komnar og á næstu misserum er von á þremur til viðbótar. Þá flutti Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, kveðjur og árnaðaróskir frá Kristjáni L. Möller samgönguráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra bar skólanum hamingjuóskir þingmanna kjördæmisins.
Námsbrautir Keilis eru ýmist á háskóla- eða framhaldsskólastigi og ná til ýmissa starfssviða. Keili er ætlað að byggja upp háskólasamfélag í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og leiða þar saman fyrirtæki og háskóla, þekkingu og fjármagn.
Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, og Árni Mathiesen fjármálaráðherra, ræddu málin við athöfn hjá Flugakademíu Keilis í dag þegar fagnað var nýjum kennsluflugvélum. |