Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. janúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á þriðjudaginn sl. var birt endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Helstu niðurstöður eru:

Viðbúið er að aðlögun efnahagslífsins sem hafin er í kjölfar bankahrunsins taki nokkurn tíma. Áætlað er að hagvöxtur hafi numið -0,1% árið 2008, þar sem vegast á áhrif samdráttar í innlendri eftirspurn og bata í utanríkisviðskiptum. Árið 2009 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 9,6%, þrátt fyrir viðsnúning í utanríkisviðskiptum og stóriðjuframkvæmdir í Helguvík. Árið 2010 er spáð að landsframleiðslan standi í stað þegar þjóðarútgjöld aukast lítillega.

Vegna óhagstæðari þáttatekjujafnaðar er viðskiptahalli á árinu 2008 nú talinn mun meiri en í fyrri áætlunum, eða um 22,2% af landsframleiðslu. Þá er spáð að mikill viðsnúningur verði í utanríkisviðskiptum og viðskiptajöfnuðurinn snúist í afgang og verði 6,1% árið 2009 og 5,6% af landsframleiðslu árið 2010. Atvinnuleysi árið 2008 varð 1,7% af vinnuafli, en spáð er að það aukist hratt árið 2009, og verði 7,8% að meðaltali það ár og 8,6% árið 2010. Reiknað er með að gengi krónunnar muni styrkjast á spátímanum. Spáð er að gengisvísitalan verði 203,5 stig á þessu ári að jafnaði, sem felur í sér nokkra styrkingu innan ársins, og að vísitalan verði 178,5 stig að jafnaði árið 2010. Þá er spáð að verðbólga verði 13,1% árið 2009 að meðaltali sem skýrist að erulegu leyti af grunnáhrifum vegna mikillar verðbólgu á síðustu mánuðum ársins 2008. Reiknað er með nokkuð hraðri lækkun verðbólgu á árinu og að verðbólgan verði nálægt 2,5 verðbólgumarkmiði Seðlabankans árið 2010.

Yfirlit þjóðhagsspár 2007–2010

Flokkar Ma.kr. 2007 Brb. 2007, magn-breytingar frá fyrra ári, % Spá 2008, magn-breytingar frá fyrra ári, % Spá 2009, magn-breytingar frá fyrra ári, % Spá 2010, magn-breytingar frá fyrra ári, %
Einkaneysla
749,0
4,3
-7,1
-24,1
-1,4
Samneysla
316,8
4,2
3,5
1,6
1,6
Fjármunamyndun
356,9
-13,7
-23,2
-34,5
7,8
Þjóðarútgjöld alls
1.429,4
-1,4
-8,8
-20,6
1,0
Útflutningur vöru og þjónustu
451,7
18,1
8,6
5,2
4,2
Innflutningur vöru og þjónustu
587,9
-1,4
-14,5
-22,9
8,4
Verg landsframleiðsla
1.293,2
4,9
-0,1
-9,6
0,0
Viðskiptajöfnuður
-199,6
.
.
.
.
% af landsframleiðslu
.
-15,4
-22,2
6,1
5,6

Ofangreind þróun ásamt endurreisn gjaldeyrismarkaðar og bankakerfisins skapar forsendur fyrir snarpri lækkun stýrivaxta þegar líður á árið og er því spáð að þeir verði um 13,1% að meðaltali á árinu. Reiknað er með frekari lækkun árið 2010 og að þeir verði að jafnaði 4,8% það ár. Mikil óvissa er um framvindu efnahagsmála nú um stundir en hún snýr helst að þróun gengis krónunnar, framvindu kjarasamninga og frekari stóriðjuframkvæmda. Auk þess má nefna möguleika á breyttri stefnu varðandi þátttöku landsins í Evrópusamstarfi og tengdar breytingar á fyrirkomulagi gengismála ásamt þróun á fjármálamörkuðum og efnahagsmálum á heimsvísu. Þá ríkir mikil óvissa um endurreisn bankakerfisins og virkni fjármálakerfisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta