Yfirlýsing Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins
Við reglubundna læknisskoðun á Landsspítalanum í síðustu viku kom í ljós hjá mér lítið æxli í vélinda. Síðastliðinn þriðjudag var mér greint frá því að rannsóknir hefðu leitt í ljós að æxlið er illkynja. Mínir læknar hafa lagt að mér að gangast þegar í stað undir aðgerð til að fjarlægja meinið. Slíka aðgerð er ekki hægt að gera hér á landi og verður hún því framkvæmd erlendis um eða skömmu eftir næstu mánaðamót.
Ég er bjartsýnn á að sigrast á þessum veikindum, læknar segja batahorfur ágætar og að ég geti vænst þess að halda fullri starfsorku á næstu mánuðum hið minnsta. Hins vegar er aldrei hægt að útiloka að mál sem þessi geti þróast til verri vegar þegar til lengri tíma er litið.
Í ljósi þeirrar óvissu sem óhjákvæmilega leiðir af eðli þess meins sem ég hef greinst með, hef ég ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi. Ég hef þegar gert samherjum mínum í þingflokki og miðstjórn flokksins grein fyrir þessari ákvörðun og þeim ástæðum sem að baki henni liggja.
Það gerir mína ákvörðun auðveldari að Sjálfstæðisflokkurinn á úr breiðum hópi mikilhæfra forystumanna að velja. Fyrir hönd flokksins míns kvíði ég þess vegna ekki framtíðinni.
*****
Ég vil jafnframt greina frá því að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vill að gengið verði til alþingiskosninga laugardaginn 9. maí næstkomandi. Ég hef þegar rætt við formann samstarfsflokksins um ofangreinda dagsetningu og munum við ræða nánar saman um helgina. Ég legg áherslu á að ríkisstjórnin vinni áfram ótrauð fram að kosningum að þeim verkefnum sem brýnust eru til bjargar heimilum og fyrirtækjum í landinu. Ég mun leggja allt kapp á það í samstarfi við aðra flokka að undirbúningur komandi þingkosninga muni ekki raska þeim efnahagsáætlunum sem við vinnum eftir í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar eru miklir hagsmunir í húfi eins og ég hef ítrekað lagt ríka áherslu á.
*****
Í ljósi þess að allar líkur eru á að gengið verði til kosninga í vor hefur miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákveðið að fresta landsfundi flokksins og verður hann haldinn dagana 26. – 29. mars næstkomandi. Á þeim landsfundi mun Sjálfstæðisflokkurinn móta stefnu sína fyrir kosningar og velja sér nýjan formann sem leiða mun flokkinn í næstu kosningunum.