Fráviksspár fyrir árin 2009 og 2010
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. janúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Til að koma til móts við þá óvissu sem nú ríkir um framvindu efnahagslífsins eru birtar spár sem sýna möguleg frávik við grunnspá.
Í fyrra fráviksdæminu er gert ráð fyrir jákvæðari þróun en í grunnspá. Þannig er miðað við að erlendis verði viðsnúningur fyrr á ferðinni og verð á hrávöru hækki. Það skilar sér í betri stöðu utanríkisviðskipta en í grunnspá auk hraðari viðsnúningi þjóðarútgjalda og meiri styrkingu gengis krónunnar. Niðurstaðan er sú að hagvöxtur verður 0,7 prósentum meiri en í grunnspá árið 2009 og 2,7 prósentum meiri árið 2010. Þá hefur jákvæðari þróun áhrif til að draga úr verðbólgu og atvinnuleysi.
Í seinna dæminu er gert ráð fyrir neikvæðari þróun en í grunnspá. Staðan á erlendum mörkuðum verði verri, minni hagvöxtur á heimsvísu og minni eftirspurn eftir útflutningsvörum landsins. Einnig er gert ráð fyrir að verð á hrávörum lækki umfram það sem fram kemur í grunnspá. Fyrir vikið verður viðsnúningur minni í utanríkisviðskiptum en einnig er gert ráð fyrir að fjárfesting verði minni en ella vegna takmarkaðra aðgengis að fjármögnun ásamt því að styrking krónu er minni en í grunnspá. Niðurstaðan er sú að hagvöxtur dregst saman um 0,6 prósent meira en í grunnspá árið 2009 og 1,2 prósentum meira árið 2010. Neikvæðari forsenda hefur einnig áhrif til að auka verðbólgu og atvinnuleysi.