Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2009 Forsætisráðuneytið

Stjórnarsamstarfi slitið

Hæstvirtur forseti

Ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er lokið. Ég mun ganga á fund forseta Íslands í dag klukkan 16 og biðjast lausnar fyrir mig og ráðuneyti mitt.

Rétt er að gera þingheimi grein fyrir því að ekki er um að málefnalegan ágreining að ræða milli flokkanna heldur hefur krafa Samfylkingarinnar um að taka við forsætisráðuneytinu valdið trúnaðarbresti sem ekki er yfirstíganlegur. Öllum má vera ljóst að krafa um stjórnarforysta flytjist á milli á flokka í ríkisstjórn getur ekki leitt til annars en stjórnarslita.

Ég vil þakka hæstvirtum utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, persónulega fyrir það samstarf sem við höfum átt. Þar hefur engan skugga borið á. Því miður hefur skort á að hennar eigin flokksmenn hafi sýnt henni sem forystumanni þá samstöðu sem nauðsynleg er í ríkisstjórnarsamstarfi.

Ríkisstjórnin hefur unnið mikið verk við ótrúlega erfiðar aðstæður síðustu vikur og mánuði. Það gengur kraftaverki næst að hér á landi skuli vera starfhæft bankakerfi eftir hrun fjármálakerfisins í byrjun október. Vel hefur miðað í undirbúningi endurreisnar og uppbyggingar í samfélaginu. Um það bil hundrað atriði eða lagabreytingar, reglugerðarbreytingar og stjórnvaldsákvarðanir sem hafa komið til framkvæmda eða verið ákveðnar á þessum tíma. Það er heldur ekki hægt að gera kraftaverk á hverjum einasta degi. Allir sjá það en stundum stendur upp á okkur sú krafa að gera það.

Því miður hefur það nú gerst sem ég óttaðist allan tímann frá því að bankahrunið varð í byrjun október, að stjórnarkreppa myndi bætast ofan á efnahagskreppuna.

Ég skora á þingmenn alla að rísa nú undir þeirri ábyrgð sem þeim hefur verið falin af þjóðinni og búa svo um hnútana að þær viðamiklar björgunaraðgerðir sem nú eru í gangi fari ekki út um þúfur í stjórnleysi og upplausn. Ekkert okkar er mikilvægara en hagur þjóðarinnar og við verðum öll að ganga í takt næstu vikur og mánuði þar til kjósendur velja sér nýja fulltrúa.

Þetta er verkefnið sem nú blasir við okkur hér á Alþingi og við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu ekki hlaupast undan þeirri ábyrgð.

Geir H. Haarde

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta