Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lánamál ríkissjóðs 2009

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. janúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Áherslur í lánamálum ríkissjóðs á árinu 2009 hafa nú verið birtar. Þar kemur fram að hrein fjárþörf ríkissjóðs verður 145 milljarðar kr. á árinu. Það þýðir að útstreymi fjármagns úr ríkissjóði er meira en innkomnar tekjur sem þessu nemur.

Við fall gömlu bankanna féllu á ríkissjóð ýmsar skuldbindingar sem hann þarf að taka á sig. Má þar m.a. nefna stofnfjár- og eiginfjárframlag inn í nýju bankana og yfirtöku ótryggra tryggingabréfa vegna veð- og daglána Seðlabanka og verðbréfalána til aðalmiðlara ríkissjóðs.

Áætlað er að eiginfjárframlag ríkissjóðs til nýju bankanna nemi 385 ma.kr. Ekki er gert ráð fyrir að fjármagna þurfi framlagið með því að sækja fé á markað heldur að ríkissjóður kaupi markaðshæf skuldabréf af Seðlabankanum og greiði fyrir þau með því að fella niður kröfu á Seðlabankann vegna áður veittra lána ríkissjóðs til styrkingar gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans og með útgáfu skuldabréfs til bankans.

Ríkissjóður yfirtók í byrjun árs óvarin tryggingabréf vegna veð- og daglána Seðlabankans til innlendra fjármálastofnana að fjárhæð 345 ma.kr. og greiddi fyrir með skuldabréfi útgefnu á Seðlabankann að fjárhæð 270 ma.kr. Á þessi stigi liggur ekki nákvæmlega fyrir hvað innheimtast kann af þessum bréfum en í áætlunum fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að 50 – 80 ma.kr. muni innheimtast.

Fyrir liggur að fjármagna þarf fjárþörf ríkissjóðs á árinu á innlendum markaði. Áformað er að gera það með því að nýta 100 ma.kr. af innistæðum ríkissjóðs í Seðlabanka ásamt því að gefa út markaðsskulda bréf umfram innlausn skulda á gjalddaga fyrir um 45 ma.kr. Á gjalddaga eru ríkisbréf fyrir um 71 ma.kr. að nafnverði auk þess sem ráðgert er að innlausn ríkisvíxla umfram sölu nemi 29 ma.kr. Samtals eru því á innlausn 100 ma.kr. Ný útgáfa ríkisbréfa er því áætluð 145 ma.kr. Óbundnar innistæður ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands námu um sl. áramót 172 ma.kr.

Áætlað er að hreinar skuldir ríkissjóðs hafi í árslok 2008 numið 442 ma.kr. og að hrein staða ríkissjóðs hafi verið neikvæð um 263 ma.kr. eða um 16,1% af VLF.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta