Eigna- og skuldastaða ríkissjóðs
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 4/2009
Allmikil umræða hefur verið undanfarna daga um skuldastöðu ríkissjóðs og breytingar sem orðið hafa eftir fall bankanna í október 2008.
Fjármálaráðuneytið hefur lagt mat á þær breytingar sem verða á eigna- og skuldahlið ríkissjóðs vegna þeirra breytinga og áætlað stöðuna eins og hún verður í árslok 2009.
Eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu er gert ráð fyrir að heildaskuldir ríkissjóðs aukist um ríflega 400 milljarða króna á árinu 2009 auk þess sem ríkissjóður mun ábyrgjast skuldir vegna Icesave/Edge og lán IMF o.fl. til Seðlabanka Íslands upp á tæplega 1300 milljarða króna.
Nettóstaða ríkissjóðs (skuldir að frádregnum eignum) mun breytast úr því að vera neikvæð upp á ríflega 8 milljarða króna í 563 milljarða neikvæða stöðu. Er þá gert ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna Icesave/Edge verði 150 milljarðar króna.
Yfirskrift | Fært til gjalda | Skuldir | Eignir | Eigna-breyting |
---|---|---|---|---|
Staða ríkissjóðs árslok 2008* |
666.300
|
658.200
|
-8.100
|
|
Fjárlagahalli ársins 2009** |
150.000
|
50.000
|
-100.000
|
-150.000
|
Tap vegna veðlána |
220.000
|
270.000
|
50.000
|
-220.000
|
Tap vegna verðbréfalána |
35.000
|
-35.000
|
-35.000
|
|
Endurfjármögnun bankanna (385 ma.kr) |
100.000
|
100.000
|
0
|
|
Skuldastaða í lok árs 2009 |
405.000
|
1.086.300
|
673.200
|
-413.100
|
Ábyrgðir ríkissjóðs/SÍ: Icesave /Edge |
600.000
|
450.000
|
-150.000
|
|
Ábyrgðir ríkissjóðs/SÍ: AGS og ýmis lönd (lán og lánalínur) |
680.000
|
680.000
|
0
|
|
$ = 127 16.01.09 | ||||
*Auk peningalegra eigna sem hér eru taldar nemur bókfært virði fyrirtækja í eigu ríkissjóðs 195 ma.kr. | ||||
**Halli ríkissjóðs árin 2010 og 2011 er samtals áætlaður 160 ma.kr. |
Staða ríkissjóðs í árslok 2008
Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri eru skuldir ríkissjóðs 666 ma.kr. en eignir 658 ma.kr. í árslok 2008, auk þeirra eigna og skulda sem taldar eru hér að ofan. Í uppgjörinu eru á eignahlið teknar inneignir ríkissjóðs á viðskiptareikningum, handbært fé og kröfur ríkissjóðs s.s. veitt lán. Skuldir ríkissjóðs samanstanda af útgefnum markaðsbréfum ríkissjóðs, innlendum og erlendum skuldum. Auk peningalegra eigna sem hér eru taldar nemur bókfært virði fyrirtækja í eigu ríkissjóðs 195 ma.kr.
Fjárlagahalli áranna 2009-2012
Samkvæmt fjárlögum ársins 2009 er halli ríkissjóðs 150 ma.kr. á árinu en það er mikill viðsnúningur frá því sem verið hefur á undanförnum árum og skýrist af þeim efnahagslegu aðstæðum sem nú ríkja. Áformað er að leysa fjárþörf ríkissjóðs á árinu 2009 með því að nýta 100 ma.kr. af innistæðum ríkissjóðs í Seðlabanka en það sem á vantar með útgáfu markaðsskuldabréfa á innlendum markaði.
Samkvæmt langtímaáætlun í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir að ná jöfnuði í rekstri ríkissjóðs á árinu 2012 en að halli áranna 2010 og 2011 verði samtals 160 ma.kr.
Tap vegna veðlána
Ríkissjóður gaf í byrjun árs 2009 út skuldabréf að fjárhæð 270 ma.kr vegna yfirtöku óvarinna tryggingabréfa vegna veð- og daglána Seðlabankans til innlendra fjármálastofnana að fjárhæð 345 ma.kr. Umræddar kröfur eru tilkomnar vegna lánafyrirgreiðslu sem Seðlabankinn veitti fjármálafyrirtækjum í samræmi við hlutverk hans sem seðlabanka. Ljóst er að umtalsvert tap hefur orðið vegna þessara lánveitinga sem hefði rýrt eigið fé Seðlabanka umfram það sem hann hefði getað staðið undir. Seðlabankinn tekur á sig hluta af tapi vegna lánanna og kemur það fram í 75 ma.kr lækkun á eigin fé bankans. Það sem á vantar bætir ríkissjóður með útgáfu skuldabréfs á Seðlabankann að fjárhæð 270 ma.kr., jafnframt því að taka yfir tryggingabréfin. Gert er ráð fyrir að um 50-80 ma.kr. innheimtist af tryggingabréfunum sem ríkissjóður yfirtekur og að tap vegna bréfana nemi 220 ma.kr.
Tap vegna verðbréfalána
Samkvæmt samningum við aðalmiðlara ríkisverðbréfa áttu þeir kost á að fá lánuð ríkisverðbréf til skilgreinds tíma gegn framlagningu tryggingabréfa til að auðvelda þeim að uppfylla kröfur um viðskiptavakt. Við fall bankanna námu útistandandi verðbréfalán um 133 ma.kr. að nafnverði en þar af hafa um 40 ma.kr. endurheimst. Reikna má með að ríkissjóður verði fyrir 35 ma.kr. tapi vegna þessarar fyrirgreiðslu þar sem hluti tryggingabréfanna var í bankabréfum útgefnum af Glitni og Kaupþingi. Auk þess þarf ríkissjóður að yfirtaka og eignfæra tryggingabréf að andvirði 65 ma.kr. og færa til skuldar sasvarandi fjárhæð ríkisbréfa sem aðalmiðlarar gátu ekki endurgreitt. Umræddar fjárhæðir eru inni í tölum um stöðu ríkissjóðs í lok árs 2008.
Endurfjármögnun bankanna
Áætlað er að eiginfjárframlag ríkissjóðs til nýju bankanna nemi 385 ma.kr. og að það verði greitt með markaðshæfum tryggingabréfum vegna verðbréfa-, veð- og daglána. Ríkissjóður eignaðist markaðsskuldabréf fyrir um 65 ma.kr. við yfirtöku verðbréfalána sem sett verða inn í bankana en einnig mun ríkissjóður kaupa samsvarandi markaðsbréf af Seðlabankanum vegna veð- og daglána bankans fyrir um 320 ma.kr. Ríkissjóður mun greiða Seðlabankanum fyrir markaðsbréfin með yfirtöku Seðlabankans á áður veittum lánum ríkissjóðs vegna styrkingar gjaldeyrisvaraforða að jafnvirði um 220 ma.kr. og með skuldabréfi að fjárhæð 100 ma.kr. Yfirtekin markaðsskuldabréf ríkissjóðs að fjárhæð 65 ma.kr. og kröfur ríkissjóðs á Seðlabankann að fjárhæð 220 ma.kr. eru taldar með eignum ríkissjóðs í lok árs 2008 og því er hér eingöngu tekinn með sá hluti eiginfjárframlags bankanna sem eftir er að fjármagna.
Icesave/Edge
Enn er ósamið um erlenda innlánsreikninga bankanna en áætlað er að ríkissjóður verði fyrir um 150 ma.kr. tapi eftir að eignir gömlu bankana hafa verið seldar. Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta skal lögum samkvæmt sjá um greiðslur úr sjóðnum en ríkissjóður ber ábyrgð á þeim greiðslum. Þessar ábyrgðir eru ekki taldar með skuldum ríkissjóðs.
IMF og ýmis lönd (lán og lánalínur)
Ýmsir aðilar hafa lýst sig reiðubúna til að rétta fram aðstoð með ýmsum lánafyrirgreiðslum. Lán IMF eru lán til Seðlabanka Íslands en ekki til ríkissjóðs beint. Gert er ráð fyrir að lánafyrirgreiðsla Norðurlandanna, Póllands og Rússlands verði í formi lánalína en þau koma til afhendingar eftir fyrstu endurskoðun IMF-áætlunarinnar í febrúar/mars nk. Öll lán og lánalínur verða í umsjón Seðlabankans sem getur valið að nýta þær til þess að auka stöðugleika á gjaldeyrismarkaði með sölu gjaldeyris sem myndar eign á móti teknum lánum. Ekki hefur á þessu stigi verið ákveðið hvort og að hve miklu leyti þessi lán og lánalínur verða nýtt.
Reykjavík 28. janúar 2009