Evróputilskipanir um bann við mismunun
Starfshópur félags- og tryggingamálaráðherra sem fjallað hefur um tilskipanir Evrópusambandsins um bann við mismunun hefur skilað skýrslu með tillögum um innleiðingu tilskipananna í íslenskum rétti. Tilskipanirnar eru tvær, annars vegar tilskipun nr. 2000/43/EB um innleiðingu meginreglurnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og tilskipun nr. 2000/78/EB um innleiðingu meginreglurnar um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi.
Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, fjármálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Formaður hópsins var Helgi Hjörvar, skipaður af félags- og tryggingamálaráðherra.
Á morgun, 30. janúar, stendur Mannréttindaskrifstofa Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneytið fyrir málþingi um löggjöf gegn mismunun á Íslandi í samstarfi við Fjölmenningarsetrið, Samtökin ‘78, Öryrkjabandalagið, Landssamtökin Þroskahjálp, Samráðsvettvang trúfélaga, Kvenréttindafélag Íslands og Alþjóðahús. Málþingið er styrkt af PROGRESS-áætlun Evrópusambandsins. Þingið verður haldið í Iðnó og hefst með léttum hádegisverði kl. 12 en formleg dagskrá er kl. 13.00–16.00.
Skýrsla starfshóps um tilskipanir Evrópusambandsins um bann við mismunun