Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2009 Utanríkisráðuneytið

Norðurslóðir verði vettvangur friðsamlegrar samvinnu

Mikilvægt er að norðurslóðir verði vettvangur friðsamlegrar samvinnu, ekki síst í ljósi þeirra öryggisáskorana sem blasa við á svæðinu. Þetta kom fram á málstofu um öryggishorfur á norðurslóðum sem haldin var í samvinnu Atlantshafsbandalagsins (NATO) og íslenskra stjórnvalda í dag. Um 300 manns frá öllum 26 ríkjum NATO, auk fulltrúa frá Króatíu og Albaníu, tóku þátt í málstofunni, þar á meðal framkvæmdastjóri NATO, ráðherrar og þingmenn aðildarríkja.

Rætt var um þær víðtæku breytingar sem eru að verða á öryggisumhverfi á norðurslóðum vegna loftslagshlýnunar sem leysir úr læðingi orkuauðlindir og opnar nýjar siglingaleiðir. Fram kom að á norðurslóðum blasa við margbreytilegar ógnir og öryggisáskoranir sem mikilvægt er að ríki og alþjóðastofnanir taki höndum saman um að stemma stigu við. Þar bera hæst óhefðbundnar ógnir, t.d. ógnir við umhverfi, hættur vegna umferðar á hafi og ógnir við orkuöryggi.

Þátttakendur voru sammála um að tryggja þyrfti að komið yrði í veg fyrir óhefta hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum og halda spennu áfram í lágmarki í þessum heimshluta. Undirstrikað var að samvinna og samráð allra hlutaðeigandi ríkja og fjölþjóðastofnanna á norðurslóðum, þ. á m. Norðurskautsráðsins, væri forsenda friðsamlegrar þróunar. Í því samhengi var sérstaklega hvatt til aukinnar samvinnu við Rússland um sameiginlega hagsmuni á svæðinu á grundvelli alþjóðasamninga, gagnsæis og trausts.

Samstaða var um að NATO hefði hlutverki að gegna á norðurslóðum og þyrfti því að auka þekkingu og vitund um málefni svæðisins. Mikilvægt væri að NATO markaði skýra stöðu í því tilliti, t.a.m. á sviði björgunar á hafi og um viðbrögð við umhverfisslysum í náinni samvinnu við einstök ríki og stofnanir, bæði borgaralegar og hernaðarlegar.

Í lok málstofunnar kom fram vilji norskra stjórnvalda að halda framhaldsmálstofu í Noregi þegar á næsta ári.

Á morgun, föstudag, fara fram hringborðsumræður um sama málefni sem skipulagðar eru af Varnarmálaháskóla NATO í Róm í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Þar munu fræðimenn frá fjölmörgum ríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum þess, þ. á m. frá Rússlandi, Svíþjóð og Finnlandi, fjalla um öryggismál á norðurslóðum út frá hinu breiða öryggishugtaki.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta