Siðareglur samgönguráðuneytis samþykktar
Samgönguráðherra samþykkti á liðnu hausti siðareglur fyrir samgönguráðuneytið. Reglurnar ná yfir ýmis atriði í daglegum verkefnum og framgöngu starfsmanna.
Tilgangur siðareglna samgönguráðuneytisins er að stuðla að trúmennsku, ábyrgð, heiðarleika, réttsýni og sanngirni starfsfólks gagnvart hvert öðru, stofnunum ráðuneytisins og þeim sem ráðuneytið þjónar og á samskipti við. Þær skulu ná til allra starfsmanna og verða endurskoðaðar árlega. Verkefnahópur starfsmanna ráðuneytisins samdi reglurnar sem voru samþykktar af starfsmönnum á liðnu hausti. Í framhaldi af því voru þær birtar á innri vef samgönguráðuneytisins.
Siðareglurnar fara hér á eftir:
Siðareglur samgönguráðuneytis
Tilgangur þessara siðareglna er að stuðla að trúmennsku, ábyrgð, heiðarleika, réttsýni og sanngirni starfsfólks gagnvart hvert öðru, stofnunum ráðuneytisins og öllum viðskiptavinum þess. Þeim er ætlað að efla traust og tiltrú borgaranna á ráðuneytinu og jafnframt að takmarka áhættuna á því að gjörðir starfsmanna og/eða athafnaleysi valdi því að ráðuneytið bíði álitshnekki í samfélaginu.
Siðareglur þessar ná til allra starfsmanna samgönguráðuneytisins.
1. Trúnaður
Starfsmenn gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara. Starfsmenn ráðuneytisins skulu gæta þess í hvívetna að upplýsingar um viðskiptavini þess haldist innan ráðuneytisins. Öllum starfsmönnum ber að vernda trúnaðarupplýsingar sem þeir verða áskynja í starfi sínu og koma í veg fyrir að óviðkomandi komist yfir þær. Starfsmönnum er óheimilt að nýta trúnaðarupplýsingar í eigin ágóðaskyni og skiptir engu máli hvernig þeir komast yfir slíkar upplýsingar. Starfsmenn gæta þagnarskyldu þótt þeir láti af störfum.
2. Upplýsingamiðlun
Starfsmönnum er skylt að upplýsa yfirstjórn ráðuneytisins um upplýsingar sem varða starfsvið ráðuneytisins og skipta máli til að ráðuneytið geti sinnt lögbundnum skyldum sínum. Skal starfsmaður á engan hátt gjalda fyrir að koma slíkum upplýsingum á framfæri við yfirstjórn ráðuneytisins.
Starfsmenn skulu ávallt hafa í huga að almenningur á rétt á upplýsingum er hann varðar og skal haft að leiðarljósi að upplýsa borgarana um réttindi þeirra og sömuleiðis þær skyldur sem ráðuneytið leggur á þá.
3. Meðferð valds
Starfsmenn skulu í hvívetna gæta þess að fara vel með það vald sem þeim er falið. Valdi skal beitt í þágu almannahagsmuna, gæta skal sanngirni, jafnræðis og meðalhófs í samræmi við stjórnsýslulög. Beiti starfsmaður mati við meðferð valds, sem honum er fengið, þar sem velja þarf á milli einstaklinga, t.d. við ráðningu í störf, úthlutun styrkja eða annarra gæða eða gerð samninga um verktöku, skal hann byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum, s.s. verðleikum og hæfni. Óheimilt er að mismuna málsaðilum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, s.s. kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, eða samfélagslegrar stöðu að öðru leyti.
4. Almannafé
Starfsmenn skulu fara vel með almannafé, gæta þess að það sé vel nýtt og sé ekki notað á annan hátt en ætlast er til samkvæmt lögum, reglugerðum, öðrum fyrirmælum eða eðli máls.
5. Hagsmunaárekstur
Starfsmaður skal upplýsa yfirstjórn ráðuneytisins um ef mögulegur hagsmunaárekstur er til staðar í tengslum við menn og málefni. Hagsmunaárekstur getur orðið til ef starfsmaður á beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta í tengslum við ákvörðun sem hann þarf að taka t.a.m. ef hann kynni að hagnast persónulega á ákvörðun eða aðrir aðilar tengdir honum t.d. maki, vinir eða fjölskylda.
6. Gjafir
Starfsmenn mega ekki taka við gjöfum, umfram smágjafir, eða annarskonar greiðslum t.a.m. skemmtun eða boðsferð, nema að fengnu sérstöku samþykki ráðuneytisstjóra.
Hafa skal samráð við ráðuneytisstjóra leiki vafi á því hvort gjöf/boð o.þ.h. teljist hófleg.
7. Brot á siðareglum
Starfsmaður sem verður var við spillingu, ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi, skal koma upplýsingum um slíka háttsemi til þar til bærra aðila, allt eftir eðli máls. Aðilar sem rétt er að leita til eru m.a. trúnaðarmenn, ráðuneytisstjóri, ráðherra, Ríkisendurskoðun eða lögregla. Starfsmaður sem í góðri trú greinir á réttmætan hátt frá upplýsingum samkvæmt þessum lið, skal á engan hátt gjalda þess.
Siðareglur þessar verða endurskoðaðar árlega.
20. október 2008