Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2009 Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Friðlýsing Vatnshornsskógar í Skorradal

Undirritun friðlýsingar Vatnshornsskógar.
Við undirritun friðlýsingarinnar

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur undirritað friðlýsingu Vatnshornsskógar í Skorradal sem friðlands í samræmi við þingsályktun um náttúruverndaráætlun. Friðlýsingin var unnin í samvinnu við Skorradalshrepp og Skógrækt ríkisins.

Markmið friðlýsingarinnar

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda náttúrulegan, lítt snortinn og hávaxinn birkiskóg með gróskumiklum botngróðri og erfðafjölbreytileika birkisins á svæðinu.

Á svæðinu er líffræðileg fjölbreytni mikil og þar vaxa sjaldgæfar tegundir, m.a. eini fundarstaður fléttutegundarinnar flókakræðu. Með friðlýsingu skógarins á að tryggja að líffræðilegri fjölbreytni vistgerða og vistkerfa svæðisins verði viðhaldið. Í því ljósi á að vernda tegundir dýra, plantna og annarra lífvera ásamt erfðaauðlindum sem tegundirnar búa yfir og búsvæði þeirra. Ennfremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta rannsókna-, útivistar- og fræðslugildi svæðisins.

Verndun gróðurs, dýralífs og jarðmyndana

Í friðlandinu verður óheimilt að spilla náttúrulegu gróðurfari, trufla dýralíf og hrófla við jarðmyndunum og öðrum náttúruminjum. Samkvæmt friðlýsingunni skal Vatnshornsskógur vaxa villtur og verður ekki hirtur eins og um nytjaskóg væri að ræða. Þó er heimilt að grisja skóginn í þágu náttúruverndar og útivistar, svo sem vegna stígagerðar.

Með friðlýsingunni á að vernda náttúrulegt gróðurfar og skapa skilyrði til náttúrulegrar endurnýjunar birkis á svæðinu. Plöntun annarra trjátegunda en staðarafbrigðis birkis er óheimil og ekki verða ræktaðar framandi plöntutegundir í friðlandinu.

Umsjón með friðlandinu

Skógrækt ríkisins hefur umsjón með svæðinu, en Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingarinnar. Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins gera sérstakan samning um umsjón og rekstur friðlandsins.

Frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Heimasíða Skorradalshrepps.

Heimasíða Skógræktar ríkisins.

Mörk friðlýsingar Vatnshornsskógar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta