Horfur í heimshagvexti
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 29. janúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur endurskoðað spá sína frá því í nóvember 2008 um framvindu efnahagsmála í heiminum.
Spáin endurspeglar nýjar upplýsingar um þróun efnahagsmála. Nú er gert ráð fyrir að hagvöxtur í heiminum verði 0,5% árið 2009, sem er umtalsverð lækkun frá fyrri spá, þegar gert var ráð fyrir 2,2% hagvexti það ár. Gangi spáin eftir verður hagvöxtur á heimsvísu sá minnsti frá lokum seinna heimsstríðs fyrir ríflega sex áratugum. Jafnframt spáir AGS nú í fyrsta skipti fyrir um hagvöxt árið 2010 og telur að hann verði 3%. Í vetrarskýrslu fjármálaráðuneytisins var m.a. miðað við fyrri spá sjóðsins um þróun alþjóðlegra efnahagsmála árið 2009.
Spáð er að samdráttur í þróuðum iðnríkjum nemi 2% að meðaltali árið 2009. Þar af dragist landsframleiðsla saman um 1,6% í Bandaríkjunum, 2% á Evrusvæðinu 2,8% á Bretlandi og 2,6% í Japan. Erfiðleikar á fjármagnsmörkuðum margra þessara ríkja hafa reynst meiri en hægt var að ráða við með lækkun stýrivaxta eða inngripum á fjármálamörkuðum til að styrkja fjárhagsstöðu fjármálafyrirtækja. Þannig hafa seðlabankar slakað á veðkröfum til fjármálakerfisins, keypt eignarhluti í bönkum, veitt þeim aukin lán eða keypt af þeim lán í vanskilum. Markmiðið hefur verið að endurvekja lánastarfsemi á millibankamarkaði. Sú viðleitni hefur hinsvegar gengið mun treglegar en vænst var þar sem margar fjármálastofnanir hafa lagt áherslu á að treysta efnahag sinn og aukna varkárni í útlánum, sérstaklega í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Við þessar aðstæður eru Bandaríkin að hverfa að því ráði að auka halla ríkissjóðs með meiri útgjöldum og lækkunum skatta. Ætlunin er að auka hallann um allt að 1000 milljörðum dollara, nálægt 6-7% af landsframleiðslu, til að koma efnahagslífinu aftur á rétt skrið. Um leið hafa áform um aukinn hallarekstur þar skapað aukna óvissu um stöðu dollarans. Í Bretlandi geysar nú alvarlegasta kreppa eftirstríðsára, en stjórnvöld þar í landi hyggjast beita ríkisfjármálaaðgerðum á sama hátt til að bæta stöðuna. Ríki á evrusvæðinu eru í sömu stöðu en hafa í meira mæli stuðst við aðgerðir í peningamálum til að vinna gegn niðursveiflunni. Þó virðast inngrip á fjármálamarkaði vera að aukast en slíkt togast á við skilmála um að halli í fjármálum hins opinbera fari ekki yfir 2% af landsframleiðslu. Í heild telur sjóðurinn að ríkishalli í þróuðum ríkjum muni aukast um 3,2 prósentur í ár og nemi hallinn þá sem næst 7,0% af landsframleiðslu. Sú þróun tengist einnig sjálfkrafa lækkun tekna og aukningu útgjalda í niðursveiflunni.
Þótt horfur í þróuðum ríkjum séu ekki bjartar er gert ráð fyrir að hagvöxtur nýmarkaðsríkja og þróunarlanda verði jákvæður árið 2009 þótt einnig sé reiknað með að hann verði mun minni en gert var ráð fyrir í fyrri spá. Þannig er spáð að hagvöxtur í Kína verði 6,7% árið 2009, sem er um helmingur af 13% hagvexti ársins 2007. Önnur nýmarkaðsríki Asíu horfa fram á svipaðan hagvaxtarsamdrátt. Hagvöxtur Rússlands nam 8% 2007 og 6% í fyrra en breytist nú í samdrátt. Álíka sögu er að segja af öðrum ríkjum Austur-Evrópu.
Hagvöxtur erlendis 2007-20091
%
Yfirskrift | 2007 | 2008 | 2009 |
---|---|---|---|
Heimurinn alls |
3,4
|
0,5
|
3,0
|
Þróuð lönd |
1,0
|
-2,0
|
1,1
|
- Bandaríkin |
1,1
|
-1,6
|
1,6
|
- Evrusvæðið |
1,0
|
-2,0
|
0,2
|
- - Þýskaland |
1,3
|
-2,5
|
0,1
|
- - Frakkland |
0,8
|
-1,9
|
0,7
|
- - Ítalía |
-0,6
|
-2,1
|
-0,1
|
- - Spánn |
1,2
|
-1,7
|
-0,1
|
- Japan |
-0,3
|
-2,6
|
0,6
|
- Bretland |
0,7
|
-2,8
|
0,2
|
- Rússland |
6,2
|
-0,7
|
1,3
|
- Kína |
9,0
|
6,7
|
8,0
|
- Indland |
7,3
|
5,1
|
6,5
|
- Brasilía |
5,8
|
1,8
|
3,5
|
Heimsviðskipti |
4,1
|
-2,8
|
3,2
|
1. Ársvöxtur vergrar landsframleiðslu á föstu verðlagi. | |||
Heimild: AGS, endurskoðuð þjóðhagsspá, janúar 2009. |
Vöxtur heimsviðskipta hefur á undanförnum árum verið eitt aðalframvinduaflið í heimsbúskapnum. Viðskiptin uxu um meir en 7% 2007 en eru talin snúast í nær 3% samdrátt í ár. Þetta kemur niður á öllum löndum, en þó meir á nýmarkaðsríkjum Asíu sem byggja hagvöxt sinn á útflutningssókn svo og mörgum þróunarlöndum sem háð eru útflutningi matvæla og ýmissa hráefna.