Kristján L. Möller verður áfram samgönguráðherra
Kristján L. Möller gegnir áfram embætti samgönguráðherra í nýrri ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Ný ríkisstjórn tók formlega við á ríkisráðsfundi á Bessastöðum nú síðdegis.
Ríkisstjórnin er nú þannig skipuð: Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðar- og utanríkisráðherra, Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Kristján L. Möller kveðst ánægður með nýja ríkisstjórn og verkefni hennar. Segir hann ljóst að vinna þurfi hratt og vel næstu vikur og mánuði fram að kosningum að endurreisn og umbótum í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Aðgerðirnar snúist um endurskipulagningu í stjórnsýslu, aðgerðir í þágu heimila og áform um opinberar framkvæmdir sem séu þjóðhagslega arðbærar og krefjist mikils vinnuafls. Kynna eigi tímasetta áætlun um opinberar framkvæmdir og útboð á árinu.
,,Við í samgönguráðuneytinu munum áfram taka fullan þátt í því að leita allra leiða til að auka hagkvæmni hjá okkur og stofnunum sem heyra undir ráðuneytið og bæta nýtingu fjármuna. Um leið munum við sýna ábyrga áætlanagerð sem tekur mið af þeim áherslum sem ný ríkisstjórn leggur,“ segir nýskipaður samgönguráðherra.
Kristján L. Möller gegnir áfram embætti samgönguráðherra. Frá vinstri: Sigurveig Björnsdóttir, ritari ráðherra, Kristján L. Möller, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Magnús Helgi Magnússon, bílstjóri ráðherra. |