Nýr félags- og tryggingamálaráðherra
Nýr félags- og tryggingamálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, tók við embættinu í dag af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Jóhanna var félags- og tryggingamálaráðherra í fráfarandi ríkisstjórn, frá 24. maí 2007, en gegndi einnig starfi félagsmálaráðherra á árunum 1987–1994.
Ásta Ragnheiður er fædd 16. október 1949. Hún hefur setið á Alþingi frá árinu 1995 og átt sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd þingsins, samgöngunefnd, iðnaðarnefnd, félagsmálanefnd, félags- og tryggingamálanefnd, umhverfisnefnd, kjörbréfanefnd og utanríkismálanefnd. Ásta hefur einnig setið í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, Íslandsdeild ÖSE-þingsins, Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Íslandsdeild NATO-þingsins. Áður en Ásta Ragnheiður tók sæti á Alþingi var hún deildarstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Nánar um Ástu Ragnheiði á vef Alþingis