Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tekur við
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tók við stjórnartaumum í dag, 1. febrúar. Meginverkefni hennar verður að hrinda í framkvæmd brýnum aðgerðum til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum, að endurreisa banka- og fjármálakerfi og koma fram mikilvægum umbótum á stjórnsýslu og lýðræði.
Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á samkomulagi íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS. Ríkisstjórnin hyggst fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum og verja velferðarkerfið.
Ríkisstjórnarflokkarnir tveir eru sammála um að nauðsynlegt sé að boða til kosninga eins skjótt og auðið er og hafa fallist á að kjördagur verði 25. apríl. Framsóknarflokkurinn mun verja ríkisstjórnina vantrausti á Alþingi fram að þeim tíma.
Tíu ráðherrar eiga sæti í ríkisstjórninni, fimm karlar og fimm konur. Tveir af ráðherrunum eiga ekki sæti á Alþingi.
Ráðherrar Samfylkingar eru: Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og ráðherra iðnaðar, orkumála og ferðamála. Félags- og tryggingaráðherra verður Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Kristján Möller er samgönguráðherra.
Af hálfu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs taka sæti í ríkisstjórn Steingrímur J. Sigfússon, sem verður fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ögmundur Jónasson verður heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra verður Katrín Jakobsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir verður umhverfisráðherra.
Auk þeirra eiga Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir sæti í ríkisstjórn. Gylfi verður viðskiptaráðherra og Ragna dómsmálaráðherra.