Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný heimasíða Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar

Frá opnun heimasíðu Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnarÁsta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, heimsótti í dag Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og opnaði nýja og glæsilega heimasíðu miðstöðvarinnar: www.midstod.is Þar má finna allar upplýsingar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og aðstandendur þeirra. Miðstöðin er til húsa í Hamrahlíð 17.

Ráðherra sagði nokkur orð við opnun heimasíðunnar og nefndi að með stofnun Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar blindra, sjónskertra og daufblindra um áramótin hefðu orðið þau tímamót að málefni þessa hóps hefði flust frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. „Þetta er skynsamleg og réttmæt breyting, því þar eiga málefni fatlaðra sinn rétta samastað. Málefni fatlaðra eru ekki heilbrigðismál. Fólk með fötlun er ekki veikt heldur býr við skerta getu og færni á tilteknum sviðum vegna fötlunar. Markmið þjónustunnar á að vera að efla getuna og færnina og ryðja úr vegi hindrunum í samfélaginu til að tryggja möguleika fólks til þátttöku í daglegu lífi til jafns við alla aðra.“

Ráðherra sagði heiti nýju stofnunarinnar segja mikið til um þann góða vilja sem að baki býr. Markmiðið sé fyrst og fremst að veita þjónustu og auka þekkingu á aðstæðum blindra, sjónskertra og daufblindra. „Með aukinni þekkingu færist þjónustan nær þörfum einstaklinganna. Þetta er einmitt markmiðið – það er að veita einstaklingsbundna þjónustu sem byggist á virðingu fyrir fólki og er mótuð í samvinnu við notandann.“

Ráðherra sagðist vita að starfsfólk stofnunarinnar hefði haft í mörg horn að líta síðustu vikur og mánuði við undirbúning að starfsemi nýrrar stofnunar. „Ég þakka ykkur öllum fyrir mikið og gott framlag. Þið eruð stofnunin og á ykkur veltur framtíð þjónustunnar sem hér er verið að byggja upp. Nýja heimasíðan er mikilvægur þáttur í því að veita góða þjónustu og upplýsingar. Ég opna hana því með ánægju og vona að hún eigi eftir að nýtast vel.“



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta