Ráðgjafarhópur ríkisstjórnarinnar til að vinna tillögur um breytingar á stjórnarskránni
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur sett á fót ráðgjafarhóp ríkisstjórnarinnar til að vinna tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, mun leiða ráðgjafarhópinn, sem undirbúa mun frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem lagt verði fram á Alþingi á næstu vikum. Mun Björg koma tímabundið til starfa í forsætisráðuneytinu á meðan á þessu verkefni stendur. Aðrir í hópnum eru þau Bryndís Hlöðversdóttir, forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, og Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.
Í erindisbréfi til ráðgjafarhópsins er vísað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og honum falið að gera tillögu um stjórnarskrárákvæði um eftirtalið:
a) auðlindir í þjóðareign.
b) þjóðaratkvæðagreiðslur.
c) aðferð við breytingar á stjórnarskrá með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Jafnframt er þess óskað að ráðgjafarhópurinn meti í ljósi starfs stjórnarskrárnefndar á árunum 2005-2007, og þess víðtæka samráðs sem þá átti sér stað, hvort rétt sé að gera tillögu um fleiri stjórnarskrárbreytingar á þessu stigi, einkum varðandi umhverfisvernd.
Þá verður ráðgjafarhópnum falið að hefja undirbúning lagasetningar varðandi stjórnlagaþing eftir komandi alþingiskosningar og móta tillögur um nauðsynlega lagasetningu og eftir atvikum setningu bráðabirgðaákvæðis í stjórnarskrá.
Forsætisráðherra mun að fengnum tillögum framangreindra sérfræðinga hafa samráð við alla flokka, sem fulltrúa eiga á Alþingi, áður en frumvarp til stjórnarskipunarlaga verður lagt fram á Alþingi.
Þá hefur forsætisráðherra falið Þorkeli Helgasyni, stærðfræðingi, að stýra vinnu við undirbúning hugsanlegra breytinga á kosningalögum fyrir komandi kosningar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að kosningalögum verði breytt með þeim hætti að opnaðir verði möguleikar á persónukjöri í kosningum til Alþingis. Samráð verður haft við fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi í þessari vinnu.
Reykjavík 8. febrúar 2009