Utanríkisráðherrar Norðurlandanna álykta um Sri Lanka og Gaza
Norrænu utanríkisráðherrarnir lýstu í dag yfir áhyggjum sínum vegna ástandsins á Sri Lanka þar sem um 250.000 óbreyttir borgarar hafa lokast inni á átakasvæðum. Þá sögðu utanríkisráðherrarnir að bráð nauðsyn væri á að auka aðstoð við Palestínumenn á Gaza. Ráðherrarnir funduðu í dag í Ósló og stýrði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fundinum.
Utanríkisráðherrarnir skoruðu á stríðandi fylkingar á Sri Landa; stjórnarherinn og baráttusamtök Tamíl Tígra (LTTE) að virða mannúðarlög og að samþykkja vopnahlé svo hægt væri að koma slösuðum til aðstoðar og koma hjálpargögnum til þeirra sem búa á átakasvæðunum. Sögðu ráðherrarnir nauðsynlegt að alþjóðasamtök á borð við Alþjóða Rauða krossinn og Sameinuðu þjóðirnar gætu starfað á svæðunum. Þá skoruðu ráðherrarnir á stríðandi fylkingar að hefja friðarviðræður án tafar.
Utanríkisráðherrarnir fimm lögðu einnig áherslu á að aðstoð við almenning á Gaza yrði aukin og að friðarumleitanir á milli Ísraela og Palestínumanna hæfust að nýju, enda ljóst að átökin á Gaza yrðu ekki leyst með vopnavaldi.
Ráðherrarnir lögðu áherslu á þátt Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, (UNRWA), í aðstoðar- og uppbyggingarstarfinu en Norðurlöndin leggja um 20% af rekstrarfé stofnunarinnar. Vegna hinnar gríðarlegu eyðileggingar sem orðið hefur á Gaza, er ljóst að rekstrarkostnaður stofnunarinna mun hækka verulega. Lýstu norrænu ráðherrarnir áhyggjum sínum af því að framlög alþjóðasamfélagsins myndu ekki duga til að mæta stórauknum kostnaði.