Áhrif efnahagsþrenginga á stöðu kynjanna
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að settur verði á fót vinnuhópur til að meta áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna. Hópurinn verður skipaður af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra.
Skipun hópsins er í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að hún sé einhuga um að við endurreisn íslensks efnahagslífs og uppbyggingu faglegra stjórnunarhátta verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi.
Helstu verkefni hópsins verða að safna upplýsingum um áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna þar sem ætla má að áhrifin séu ekki þau sömu á konur og karla. Einnig að meta áætlanir ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka um viðbrögð við efnahagsástandinu og hvaða áhrif þær kunna að hafa á stöðu kynjanna. Þá verður hópnum falið að afla upplýsinga um þessi efni út frá reynslu annarra þjóða sem lent hafa í efnahagsþrengingum. Loks verður það hlutverk hópsins að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við skipulagningu aðgerða og áætlana um viðbrögð við afleiðingum efnahagsástandsins.
Ráðgert er að vinnuhópurinn hefji störf um miðjan febrúar og mun formaður gera ráðherra reglulega grein fyrir stöðu verkefnisins. Áfangaskýrsla hópsins verður kynnt í ríkisstjórn um miðjan mars og verður þá metið hvernig til hefur tekist og teknar ákvarðanir um framhald starfsins.
Í vinnuhópinn verða skipaðir fulltrúar frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu.