Velferðarvakt sett á fót
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun að stofnuð verði velferðarvakt í samvinnu ríkis, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila til að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á einstaklinga og fjölskyldur og gera tillögur um viðbrögð. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, mun skipa hóp til að stýra verkefninu, samhæfa upplýsingaöflun og gera tillögur um viðbrögð.
Efnahagsþrengingar þjóðarinnar með vaxandi atvinnuleysi og fjárhagserfiðleikum einstaklinga og fjölskyldna geta haft ýmsar félagslegar afleiðingar á borð við félagslega einangrun, andlega vanlíðan, versnandi heilsufar og aukna hættu á misnotkun áfengis og vímuefna. Þá hafa erlendar rannsóknir á afleiðingum efnahagsþrenginga sýnt hættu á auknu heimilisofbeldi og vanrækslu á börnum.
Hlutverk velferðarvaktarinnar verður meðal annars að afla upplýsinga um félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar bankahrunsins á einstaklinga og fjölskyldur, afla upplýsinga um reynslu annarra þjóða af efnahagsþrengingum, kortleggja hvaða leiðir ríki, sveitarfélög og félagasamtök hafa til að bregðast við vandanum og efna til samráðs með fulltrúum opinberra stofnana, félagasamtaka og öðrum sem lagt geta af mörkum vegna þekkingar sinnar og reynslu. Á grundvelli þessa skal velferðarvaktin gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna og samhæfa þær.
Velferðarvaktin verður skipuð fulltrúum frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Biskupsstofu, Kennarasambandi Íslands og Rauða krossi Íslands.