Nr. 6/2009 - Karfaveiðar á Reykjaneshrygg 2009
Í dag lauk í London samráðsfundi um stjórn veiða á karfa á Reykjaneshrygg á árinu 2009. Fundinn sátu fulltrúar Íslands, Færeyja, Grænlands, Evrópusambandsins, Noregs og Rússlands.
Niðurstaðan var sú að fyrirkomulag veiðanna er að mestu óbreytt frá síðasta ári. Helsta breytingin er sú að allt að 70% veiðiheimilda má nýta á norðaustur veiðisvæðinu í stað 65% áður. Einnig var hert á ákvæðum til verndar hrygningarfiski.
Afstaða Íslands á fundinum var sem fyrr sú að draga úr sókn í karfa á Reykjaneshrygg enda hefur verið veitt umtalsvert umfram vísindaráðgjöf á undanförnum árum. Ekki náðist samstaða um slíkt á fundinum og sætti Ísland sig við þessa niðurstöðu í ljósi þess að ella hefði engin stjórn orðið á veiðunum.
Innan Alþjóða hafrannsóknaráðsins hefur undanfarið verið unnið að endurskoðun á stofngerð karfa á Reykjaneshrygg. Von er á niðurstöðum á næstunni og á grunni þeirra munu þjóðirnar vinna að langtímastjórn veiðanna. Vonast er til að því ferli verði lokið áður en veiðar hefjast árið 2010.