Vöruskiptin í janúar 2009
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 5. febrúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands nam vöruinnflutningur 33,3 ma.kr. (fob) í janúar, sem er 4,5 ma.kr. aukning frá fyrra mánuði.
Vöruútflutningur var aftur á móti 33,6 ma.kr., sem er 20,4 ma.kr. samdráttur frá því í desember en umtalsverð aukning frá janúar á fyrra ári. Afgangurinn á vöruskiptunum var því einungis 0,3 ma.kr. í janúar, sem er 24,2 ma.kr. minni afgangur en í desember þegar margir þættir lögðust á eitt við að skila miklum afgangi.
Það er tvennt sem skýrir aukinn innflutning í janúar. Innflutningur hrá-og rekstrarvara jókst lítillega en innflutningur á áloxíð var með minna móti í desember. Þá var mikil aukning í innflutningi á eldsneyti og olíum eftir lítinn slíkan innflutning í desember. Á móti dróst annar innflutningur eilítið saman í janúar. Gert er ráð fyrir að innflutningur í heild haldi áfram að dragast saman í febrúar m.a. þar birgðastaða ál- og olíufyrirtækja virðist hafi verið orðin nokkuð góð í lok janúar.
Útflutningur dróst aftur á móti mjög mikið saman í janúar og er það rakið til bæði minni útflutnings á sjávarafurðum og áli. Verð íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hefur lækkað undanfarið og sömuleiðis heimsmarkaðsverð á áli.
Þessar verðlækkanir skýra þó ekki nema að hluta samdráttinn í janúar. Einnig var um mikinn magnsamdrátt í útflutningi sjávarafurða og áls að ræða en nákvæmar upplýsingar um það liggja ekki fyrir sem stendur. Gera má ráð fyrir auknum álútflutningi í febrúar þar sem álverin þrjú framleiða nú öll við fullt framleiðslustig þrátt fyrir samdrátt í eftirspurn á áli á heimsvísu. Bráðabirgðatölur um veiddan afla í janúar liggja ekki fyrir en vísbendingar eru um að sölutregðu gæti á íslenskum sjávarafurðum um þessar mundir og að birgðir af óseldum sjávarafurðum hafi aukist.