Nr. 7/2009 - Varðandi hvalveiðar
Niðurstöður þessa starfs eru eftirfarandi:
-
Lögmaðurinn gagnrýnir málsmeðferð fyrrverandi ráðherra við setningu reglugerðarinnar og telur lagagrundvöll hennar og hvalveiða almennt veikan, en lögin um hvalveiðar eru frá 1949. Engu að síður er það niðurstaða hans, að íslenska ríkið sé bundið af þeirri meginákvörðun sem af setningu reglugerðarinnar leiðir, þannig að núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé ekki fært að fella reglugerðina úr gildi eða afturkalla þá grundvallarákvörðun sem í henni er fólgin um að heimila hvalveiðar. Hins vegar sé ráðherra heimilt að breyta reglugerðinni og gera með því ýmsar efnisbreytingar á þeim reglum sem um veiðarnar gilda. Þetta eigi til dæmis við um veiðiheimildir, veiðitíma og veiðisvæði. Ennfremur um reglur sem unnt er að setja á grundvelli hvalveiðilaganna til að gæta hagsmuna annarra aðila og til þess að draga sem mest úr ónæði sem hvalveiðar og vinnsla kunna að valda öðrum.
-
Ákvörðun um hvalveiðar stendur óbreytt fyrir yfirstandandi ár. Á hinn bóginn eru tekin af öll tvímæli um að hvalveiðimenn geti ekki gengið að því sem vísu að ákvörðun fv. ráðherra standi hvað varðar veiðar næstu fjögur ár. Stjórnvöld hljóta að fylgjast grannt með framvindu veiðanna og mála þeim tengdum og áskilja sér allan rétt til að grípa inn í verði breytingar á forsendum.
-
Grundvöllur hvalveiðanna verður endurmetinn og því starfi lokið fyrir undirbúning vertíðar ársins 2010. Þetta endurmat felst m.a. í rannsókn á þjóðhagslegri þýðingu hvalveiða, þar sem vegnir verða og metnir mismunandi hagsmunir. Hafnar eru viðræður við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í samstarfi við fleiri aðila um að stofnunin taki verkefnið að sér.
-
Hvalveiðilögin frá 1949 verða endurskoðuð í vetur. Til þess hefur verið skipuð þriggja manna nefnd, og stefnt er að því að leggja nýtt frumvarp fram til kynningar á þessu þingi. Fyrsta verk nefndarinnar verður þó að endurskoða núverandi úthlutun hrefnuveiðileyfa til að tryggja jafnræði við úthlutun þeirra með hliðsjón af athugasemdum umboðsmanns Alþingis.
-
Afmörkuð verða svæði til hvalaskoðunar, þar sem með öllu verður óheimilt að stunda hvalveiðar. Þetta er gert á grundvelli laga og til þess að koma í veg fyrir árekstra milli þessara tveggja atvinnugreina. Að lokum er tiltekið að ráðuneytið mun afla upplýsinga um að þeir sem hyggjast stunda hvalveiðar og vinna hvalaafurðir hafi fyrirfram öll önnur tilskilin leyfi sem slík starfsemi þarfnast. Jafnframt sérstaklega að eyðing úrgangs sé ásættanleg og samkvæmt reglum.
Greinargerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um hvalveiðar
Minnisblað frá Ástráði Haraldssyni hrl.
Minnispunktar frá Hafrannsóknastofnuninni
Minnisblað frá umhverfisráðuneytinu
Minnispunktar frá utanríkisráðuneytinu
Minnispunktar frá iðnaðarráðuneytinu
Bréf frá Kristjáni Loftssyni til Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Ályktanir formannafundar Starfsgreinasambands Íslands 5. febrúar 2009
Hvalaskoðun er skynsamleg nýting auðlindar
Umsagnir ferðaþjónustuaðila varðandi hvalveiðar
Skýrsla Geirs Oddssonar hjá Umhverfisstofnun Háskóla Íslands um efnahagsleg áhrif hvalaskoðunar
Hrefnur í ferðum Norður Siglinga á Skjálfandaflóa 1995-2008