Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikilvægt að framkvæmdum við Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð verði haldið áfram

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um framkvæmdir við Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð við Austurhöfnina í Reykjavík. Menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg eru sammála um mikilvægi þess að framkvæmdum við húsið verði fram haldið.
tonlistarhus2009
tonlistarhus2009

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um framkvæmdir við Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð við Austurhöfnina í Reykjavík. Menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg eru sammála um mikilvægi þess að framkvæmdum við húsið verði fram haldið.

Austurhöfn-TR ehf., félag í eigu ríkis og borgar, mun taka verkefnið yfir. Miðast allar áætlanir við að ekki þurfi að koma til aukin framlög ríkis og borgar frá því sem ákveðið var á árinu 2004 þegar framkvæmdir og rekstur tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar voru boðin út. Næstu mánuðir verða nýttir til að uppfæra verkáætlanir, endurmeta og kostnaðargreina hönnun og útfærslur tónlistar- og ráðstefnuhússins og leita hagkvæmari leiða en gert var ráð fyrir í upphafi. Verktíminn verður lengdur og er stefnt að töluverðum sparnaði í framkvæmdum við húsið og innréttingar. Allir fyrirliggjandi samningar við verktaka og birgja verða rýndir sérstaklega með það að markmiði að ná fram enn frekari hagræðingu og lægra verði auk þess sem lánskjör verða skoðuð sérstaklega til að ná hagstæðustu lánskjörum sem möguleg eru. Stefnt er að því að innlendir starfskraftar komi að framkvæmdinni hvenær sem því verður við komið.

Menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg skuldbinda sig til þess að tryggja að uppbygging á öðrum reitum við tónlistar- og ráðstefnuhúsið verði flýtt og allra leiða verði leitað til þess að tryggja blómlegt atvinnulíf í næsta nágrenni. Austurhöfn-TR ehf. og dótturfélög þess munu vinna með skipulagsyfirvöldum borgarinnar að áframhaldandi þróun svæðisins og aðlögun þess að nærliggjandi uppbyggingarsvæðum. Aðilar eru sammála um að þetta svæði njóti sérstöðu sem lykilsvæði í miðborg Reykjavíkur. Ríkið mun skoða fýsileika þess að á svæðinu rísi opinberar byggingar sem styrkt geta stöðu svæðisins og falli að markmiðum skipulagsyfirvalda. Reykjavíkurborg stefnir auk þess að uppbyggingu hafnaraðstöðu fyrir skemmtiferðarskip sem tengjast mun svæðinu.

Þótt Austurhöfn-TR ehf. leysi til sín byggingu mannvirkisins er gert ráð fyrir að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Austurhöfn-TR ehf. og dótturfélög þess munu vinna að heildaruppbyggingu alls svæðisins með það að markmiði að tryggja rekstrargrundvöll tónlistar- og ráðstefnuhússins og að öflug ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi geti náð fótfestu á þessu svæði. Mikilvægt er að skipan í stjórn Austurhafnar-TR ehf. og dótturfélaga þess taki mið af þessum breyttu forsendum verkefnisins. Eignarhald og rekstraraðkoma ríkis og borgar verða endurskoðuð eftir því sem aðstæður í efnahagslífi taka breytingum.

Markmið ríkis og Reykjavíkurborgar með byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar eru metnaðarfull og enn í fullu gildi. Þau eru að skapa sterka menningarlega ímynd; sterkt kennileiti og aðstöðu á heimsvísu sem beinir sjónum að Reykjavík og Íslandi og styrkir stöðu landsins í alþjóðlegri samkeppni á sviði menningarstarfsemi og ferðaþjónustu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta