Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stýrihópur um velferðarvakt hefur verið skipaður

Félags- og tryggingamálaráðherra, Ásta R. Jóhannesdóttir, hefur í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 10. þessa mánaðar skipað fimmtán manna stýrihóp um velferðarvakt sem ætlað er að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu með markvissum hætti og gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna.

Stýrihópurinn mun meðal annars afla upplýsinga það sem þegar hefur verið gert til að bregðast við afleiðingum efnahagshrunsins á einstaklinga og fjölskyldur og kortleggja allar viðbragðsáætlanir ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Þá gefst kostur til að meta hvar þurfi að gera betur, hvort þurfi að samhæfa aðgerðir ólíkra aðila og jafnvel hvort og þá hvernig gera megi hlutina á annan hátt svo sem mestur árangur náist.

Áhersla verður á sveigjanleika og gagnkvæma miðlun upplýsinga milli aðila þannig að samfélagið allt verði vaktað svo sem kostur er. Ráðherra leggur mikla áherslu á að stýrihópurinn hafi sem best samráð við alla þá aðila sem hafa þekkingu og/eða sinna þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur og kalli eftir tillögum um aðgerðir. Jafnframt að haldnir verði reglulegir samráðsfundir með þessum aðilum til að heyra hugmyndir þeirra og hvernig þeir telja best að tekið verði á vandanum.

Verkefni velferðarvaktarinnar er ekki hvað síst að fara yfir hvaða hópar fólks eru líklegri til að verða harðast úti og að koma með tillögur að aðgerðum sem ætlað er sérstaklega að mæta aðstæðum þessara hópa ef þess er nokkur kostur.

Áætlað er að ráðherra verði afhent áfangaskýrsla stýrihópsins um miðjan marsmánuð næstkomandi.

Í hópinn eru skipuð:

  • Lára Björnsdóttir, skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra, formaður,
  • Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af Alþýðusambandi Íslands,
  • Páll Ólafsson, tiln. af Bandalagi háskólamanna,
  • Garðar Hilmarsson, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja,
  • Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu,
  • Ása Ólafsdóttir, tiln. af dómsmálaráðuneyti,
  • Björn Ragnar Björnsson, tiln. af fjármálaráðuneyti,
  • Guðrún Sigurjónsdóttir, tiln. af heilbrigðisráðuneyti,
  • Eiríkur Jónsson, tiln. af Kennarasambandi Íslands,
  • Stefán Stefánsson, tiln. af menntamálaráðuneyti,
  • Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands,
  • Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg,
  • Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
  • Guðrún Björk Bjarnadóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins,
  • Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti.

Með nefndinni starfa Ingibjörg Broddadóttir og Þorbjörn Guðmundsson.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta