Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra heimsækir Vinnumálastofnun

Ráðherra ásamt starfsfólki VinnumálastofnunarÁsta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, heimsótti Vinnumálastofnun í dag, kynnti sér starfsemina og ræddi við starfsfólk. Gissur Pétursson forstjóri sagði að vegna mikils og vaxandi álags hefði reynst nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum. Allt kapp væri lagt á að fólk þyrfti ekki að bíða eftir útgreiðslu atvinnuleysisbóta eða afgreiðslu umsókna í Ábyrgðarsjóð launa. Meðal annars hafa verið gerðar breytingar á verklagi til að flýta afgreiðslu umsókna.

Verkefni Vinnumálastofnunar eru fjölbreytt og er stofnunin með þjónustuskrifstofur um allt land. Stofnunin fylgist með atvinnuástandi um land allt og miðlar upplýsingum, heldur skrá yfir fjölda atvinnulausa, annast vinnumiðlun, sér um greiðslu atvinnuleysisbóta og annast umsýslu Ábyrgðarsjóðs launa. Þá annast Vinnumálastofnun skipulag vinnumarkaðsúrræða sem fela í sér margvísleg verkefni sem fólk í atvinnuleit getur tekið þátt í samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Dæmi um þetta eru ýmis átaksverkefni, frumkvöðlastörf, nám og námskeið, atvinnutengd endurhæfing og fleira.

Ráðherra sagði ljóst að mikið álag væri á starfsfólki Vinnumálastofnunar og jafnframt að þau verkefni sem þar væri sinnt væru mikilvægari nú en nokkru sinni. Það skipti miklu að leysa þau vel af hendi og hún væri þakklát starfsfólkinu fyrir allt sem það legði af mörkum. Ráðherra ræddi sérstaklega um mikilvægi þess að fólki án atvinnu gæfust fjölbreytt tækifæri til þess að halda virkni sinni. Auk verkefna sem Vinnumálastofnun sinnti í þessu skyni gætu sveitarfélögin lagt sitthvað af mörkum, til dæmis með aðgerðum sem ýttu undir að fólk án atvinnu stundaði sund, líkamsrækt eða aðra holla hreyfingu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta