Ráðherra heimsótti sérstakan saksóknara og Fangelsismálastofnun
Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra heimsótti embætti sérstaks saksóknara og Fangelsismálastofnun ríkisins í dag, föstudaginn 20. febrúar. Kynnti ráðherra sér starfsemi stofnananna og ræddi mál þeirra við starfsfólk. Báðar stofnanirnar eru til húsa í Borgartúni 7b.
Sérstakur saksóknari
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari og starfsmenn hans tóku til starfa 1. febrúar síðastliðinn. Ólafur kynnti stöðu mála hjá embættinu en því er ætlað að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar atburða sem leiddu til bankahrunsins.
Fangelsismálastofnun ríkisins
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins, og starfsfólk hans tók á móti ráðherra og kynnti stöðu fangelsismála í landinu.
Heimsókn til Fangelsismálastofnunar: F.v. Páll Winkel, Erlendur S. Baldursson afbrotafræðingur, Ragna Árnadóttir, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, Þórunn J. Hafstein skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu og Hafdís Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri Fangelsismálastofnunar.