Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórn óskar eftir áframhaldandi frystingu myntkörfulána

Ríkisstjórn Íslands fjallaði á fundi sínum í dag einkanlega um tvennt, annars vegar fyrirhugað frumvarp til breytinga á stjórnskipunarlögum sem fellur undir fyrirheit stjórnarinnar um lýðræðislegar umbætur í landinu, og hins vegar um mál er varða hag einstaklinga sem tekið hafa erlend lán, svokölluð myntkörfulán.

Ríkisstjórnin ákvað að tillögu viðskiptaráðherra, að óskað verði eftir því við fjármálafyrirtækin í landinu að þau framlengi frystingu myntkörfulána á húsnæði þar til fyrir liggur lausn til frambúðar á þeim vanda sem hækkun þessara lána hefur valdið heimilum í landinu.

Breytingar á stjórnarskrá

Hins vegar fjallaði ríkisstjórn um fyrirhugað frumvarp til breytinga á stjórnskipunarlögum til samræmis við verkefnaskrá sína. Ráðgjafahópur skipaður af forsætisráðherra hefur gert frumdrög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem meðal annars tekur til stjórnlagaþings. Frumvarpið hefur verið sent til formanna þingflokka.

Samkvæmt erindisbréfi ráðgjafahópsins skyldi byggt á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar sem mælir fyrir um að nú skuli bætast í stjórnarskrá ákvæði um a) auðlindir í þjóðareign b) þjóðaratkvæðagreiðslur og c) aðferð við að breyta stjórnarskrá. Auk þess skyldi hefja undirbúning lagasetningar um stjórnlagaþing og eftir atvikum setningar bráðabirgðaákvæðis um það í stjórnarskrá.

Þá kom fram í erindisbréfinu að hópurinn skyldi meta í ljósi starfs stjórnarskrárnefndar á árunum 2005-2007 og þess víðtæka samráðs sem þá átti sér stað, hvort rétt sé að gera tillögur um fleiri breytingar á stjórnarskrá einkum varðandi umhverfisvernd. Hefur hópurinn miðað við þetta í sínum störfum.

Reykjavík 20. febrúar 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta