Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra um breytingu á lögum um atvinnleysistryggingar nr. 54/2006.
Hlutfallslegar atvinnuleysisbætur til launfólks
Í nóvember síðastliðinn var samþykkt á Alþingi lagabreyting sem veitti heimild til að greiða fólki í hlutastarfi tekjutengdar atvinnuleysisbætur í lengri tíma en áður auk þess sem skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf var felld niður. Frumvarpið nú gerir ráð fyrir framlengdum gildistíma ákvæðisins til 31. desember 2009. Sú breyting er þó lögð til að skerðing starfshlutfalls þurfi að vera að lágmarki 10% til þess að viðkomandi eigi rétt til hlutabóta.
Réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga
Lagabreytingin frá því í nóvember rýmkaði einnig rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta frá því sem áður var. Þessar breytingar voru tímabundnar með gildistíma til 1. maí 2009. Í frumvarpi ráðherra er kveðið á um framlengingu framangreindra ákvæða til 31. desember 2009.
Enn fremur eru lagðar til breytingar á skilgreiningu hugtaksins sjálfstætt starfandi einstaklinga þannig að til þeirra teljist einungis þeir sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Samkvæmt því verður litið á alla aðra sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum sem launamenn og mun réttur þeirra til atvinnuleysisbóta byggjast á því.
Frumvarpið felur jafnframt í sér að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga verði færður til betra samræmis við rétt launafólks innan kerfisins. Þannig er gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar kunni að vera hlutfallslega tryggðir en til að meta tryggingahlutfall þeirra innan kerfisins er lagt til að miðað verði við viðmunarfjárhæðir fyrir reiknað endurgjald sem fjármálaráðherra gefur út árlega fyrir hverja starfsgrein. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem greiða einu sinni á ári staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald geti talist hlutfallslega tryggðir á grundvelli laganna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en þeir hafa ekki átt rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins fram til þessa.
Þá er gert ráð fyrir því nýmæli að áunninn réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta geti geymst í allt að 24 mánuði. Þetta getur nýst í tilvikum þar sem sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur staðið skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi en gjöldin sýna að laun hans sjálfs hafa dregist verulega saman síðustu mánuðina áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur.