Ráðherra heimsótti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu
Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra heimsótti embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í gær, mánudaginn 23. febrúar, ásamt starfsmönnum úr ráðuneytinu. Ráðherra kynnti sér áherslur embættanna og þau mál sem efst eru á baugi.
Embætti ríkislögreglustjóra
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og yfirstjórn embættisins fundaði með ráðherra um löggæslumál og framtíðarsýn. Auk þess kynnti ráðherra sér starfsemi ríkislögreglustjóraembættisins og ræddi við starfsfólk.
Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, tók á móti Rögnu ásamt starfsmönnum. Farið var yfir starfsemi lögreglunnar og m.a. kynnt aðgerðaáætlun til að stemma stigu við innbrotum á svæðinu. Ráðherra heimsótti nokkrar deildir embættisins og ræddi við starfsmenn, m.a. í umferðardeild, rannsóknardeild og almennri deild.
Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu heimsótt. Ragna Árnadóttir og Stefán Eiríksson fyrir miðju ásamt starfsfólki lögreglustjóraembættisins og ráðuneytisins.