Áhrif efnahagsþrenginga á fjölskylduna
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra ávarpaði í dag málþing nemenda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands um áhrif efnahagsþrenginga á fjölskylduna.
Ráðhera lagði áherslu á nauðsyn þess að samfélagið veiti fjölskyldum sem búa við erfiðar aðstæður sem mestan stuðning til að draga úr hættu á félagslegum vandamálum til skemmri og lengri tíma. Ráðherra sagði mikilvægt að byggja á því sem vel hefur verið gert annars staðar en varast vítin. Hún benti á að mikil þekking væri til staðar hér á landi sem bæri að nýta, nefndi umfangsmiklar rannsóknir sem hér hafa verið gerðar á högum barna og fjölskyldna og ræddi mikilvægi Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd á þessu sviði.
Í máli ráðherra kom fram að sérstaklega þurfi að huga að börnum foreldra sem hafa misst atvinnu sína. Verulega hefur fjölgað í þeim hópi. Í lok október áttu tæplega þrjú þúsund börn foreldra án atvinnu en í lok síðasta mánaðar voru þau rúmlega átta þúsund. Af þeim áttu um fjögur þúsund og fjögurhundruð börn atvinnulausan föður en tæplega fjögurþúsund börn atvinnulausa móður.
Ráðherra sagði í ávarpi sínu að hún hefði nú beðið Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd að koma með tillögur til félags- og tryggingamálaráðherra og Velferðavaktarinnar um það hvernig best megi standa vörð um hagsmuni barna í landinu, hvaða rannsóknir séu nú nauðsynlegar og hvaða atriðum þurfi sérstaklega að huga að í þessum efnum.