Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Hækkun bifreiðastyrkja til hreyfihamlaðra í fyrsta skipti í 9 ár

Frá kynningarfundi um hækkun bifreiðastyrkjaFjárhæðir styrkja og uppbóta vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðs fólks hækka um 20% og ýmis skilyrði fyrir styrkjum verða rýmkuð samkvæmt nýrri reglugerð sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félags- og tryggingamálaráðherra kynnti fyrir fulltrúum Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtaka Þroskahjálpar  á fundi í gær.

Styrkir og bætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafa ekki hækkað síðastliðin 9 ár. Félags- og tryggingamálaráðherra segir að hækkun hafi verið löngu tímabær og eins hafi verið bráðnauðsynlegt að rýmka reglur um styrki og bætur og færa kerfið nær þörfum notendanna eins og nú er gert. Ráðherra segir það vera „slæmt að góðæri liðinna ára hafi ekki verið nýtt til sjálfsagðra úrbóta eins og hér er um að ræða. Vissulega hefði verið æskilegt að hækka bætur og styrki meira en eins og aðstæður eru nú í samfélaginu var það ekki mögulegt.“ Ráðherra segir umtalsverðar úrbætur felast í nýrri reglugerð og bendir á að hugtakið hreyfihömlun er skilgreint í fyrsta sinn í reglugerð.

Þá vonast ráðherra til þess „að hægt verði að efla enn frekar stuðning við ferðamöguleika hreyfihamlaðra með því að endurskoða laga- og reglugerðaumhverfið svo fleiri hreyfihamlaðir njóti góðs af henni en nú”.

Fjárhæðir uppbóta vegna kaupa á bifreiðum hækka um 20% og sömuleiðis fjárhæðir styrkja til bifreiðakaupa. Fjárhæð uppbótar til bifreiðakaupa nemur nú 300.000 kr. og ef um er að ræða fyrstu bifreið er fjárhæðin 600.000 kr. Fjárhæðir styrkja til bifreiðakaupa til þeirra sem eru verulega hreyfihamlaðir hækka úr 1.000.000 kr. í 1.200.000 kr.

Samkvæmt eldri reglugerð var það skilyrði fyrir veitingu 50-60% styrks af heildarkaupverði sérútbúinna bifreiða að hinn hreyfihamlaði stundaði launaða vinnu eða skóla. Þetta skilyrði er afnumið í nýrri reglugerð á þeim forsendum að bifreiðin eigi að nýtast fólki í daglegu lífi. Jafnframt er fellt út eldra skilyrði um að hinn hreyfihamlaði aki sjálfur og heimilað að annar heimilismaður aki bifreiðinni. Auk þessa er sá tími sem líða skal að lágmarki milli styrkveitinga til bifreiðakaupa sérútbúinna bifreiða styttur úr sex árum í fimm. Hámarksstyrkur til bifreiðakaupa getur mest numið 5.000.000 króna samkvæmt hinni nýju reglugerð. Loks er það nýmæli í reglugerðinni að Tryggingastofnun ríkisins getur nú greitt út uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa mánaðarlega á sama hátt og tíðkast með aðrar bætur í stað þess að greiða út ársfjórðungslega.

Tenging frá vef ráðuneytisins

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta