Yfirlýsing frá viðskiptaráðuneytinu
Vegna umræðu um hugsanleg málaferli á hendur Bretum vegna aðgerða þeirra gegn íslenskum bönkum s.l. haust þá skal áréttað að engin breyting hefur orðið á fyrirhuguðum stuðningi ríkisstjórnarinnar við hugsanlega málshöfðun skilanefnda Landsbankans og Kaupþings á hendur breska ríkinu. Íslenska ríkið yrði hins vegar ekki beinn aðili að slíkum málum.
Fyrri ríkisstjórn fékk bresku lögmannsstofuna Lovells til að gefa álit á hugsanlegri málshöfðun íslenska ríkisins gegn breskum stjórnvöldum vegna aðgerða Breta. Að mati Lovells voru engar líkur á að slík málshöfðun myndi verða til þess að íslenska ríkinu yrðu dæmdar skaðabætur. Að fenginni þeirri niðurstöðu ákvað fyrri ríkisstjórn að höfða ekki mál gegn Bretum fyrir breskum dómstólum vegna þessa. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki breytt þessari ákvörðun.
Fyrri ríkisstjórn ákvað jafnframt að kanna aðra möguleika til málshöfðunar, m.a. fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki breytt þeirri ákvörðun og enga ákvörðun tekið um að höfða slíkt mál fyrir þeim dómstóli eða öðrum.
Viðskiptaráðuneytinu, 25. febrúar 2009