Frumvarp um tímabundna heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 26. febúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar hefur fjármálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og fleiri lögum.
Samkvæmt frumvarpinu geta allir sem eiga frjálsan séreignarsparnað leyst út allt að 1 milljón kr. samkvæmt umsókn til vörsluaðila á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010. Fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu opinberra gjalda, í níu mánuði frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Útgreiðslutími styttist þó hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 1 milljón kr. er að ræða. Þetta svarar til þess að einstaklingur fái um 70 þús. kr. á mánuði, að frádreginni staðgreiðslu, til viðbótar ráðstöfunartekjum sínum.
Þessi leið er fyrst og fremst hugsuð til að koma til móts við þá sem eiga í tímabundnum fjárhagserfiðleikum, t.d. vegna atvinnumissis. Ekki er það þó gert að skilyrði að viðkomandi eigi í fjárhagserfiðleikum heldur eiga allir kost á þessari fyrirgreiðslu. Hins vegar má gera ráð fyrir því að þessi kostur höfði fyrst og fremst til þeirra sem eiga í einhverjum fjárhagsvandræðum, í ljósi þess hversu verðmætt sparnaðarform séreignarsparnaðurinn er fyrir flesta. Meðal annars vegna þess var talið nauðsynlegt að árétta í frumvarpinu að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn en í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er kveðið á um að séreignarsparnaður sé ekki aðfararhæfur. Markmiðið með þessu ákvæði er þannig að vernda þennan rétt sem menn hafa gegn aðför.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar útgreiðslur séreignarsparnaðar komi ekki til skerðingar á barnabótum, vaxtabótum eða atvinnleysisbótum. Er þetta gert til að gæta samræmis í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og til að frumvarpið nái markmiði sínu. Þá er einnig lagt til að mönnum verði heimilað að draga allt að 6% viðbótariðgjald frá tekjuskattsstofni í stað 4% á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010. Er þetta hugsað til þess að hvetja til aukins séreignarsparnaðar sem þannig gæti að einhverju marki vegið upp á móti því útflæði sem verður úr séreignarsjóðum verði frumvarp þetta að lögum.
Áætlað er að um 200 milljarðar króna séu í frjálsum séreignarsparnaði í dag og að um 40% af því sé í fjárhæðum að 1 milljón kr., eða um 90 milljarðar króna samtals. Erfitt er hins vegar að meta af einhverri nákvæmni hversu margir muni nýta sér framangreinda heimild til útgreiðslu á séreignarsparnaði verði frumvarpið að lögum.
Ljóst er að vörsluaðilar séreignarsparnaðarins eru nokkuð misjafnlega undir það búnir að mæta óskum um útgreiðslu hans vegna þess hversu misseljanlegar þær eignir eru sem standa að baki séreignarsparnaðinum. Því er í frumvarpinu lagt til að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði heimilt að fresta þessum útgreiðslum séreignarsparnaðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skilyrði fyrir frestuninni er að hún sé almenn og einungis beitt ef sérstakar ástæður mæli með því og hagsmunir eigenda séreignarsparnaðar krefjist. Jafnframt er skilyrði að frestun á útgreiðslum skuli þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og að hún sé háð samþykki þess.