Afhending landbúnaðarverðlauna 2009
Heiðraða samkoma.
Það er orðinn fastur liður við setningu Búnaðarþings að landbúnaðarráðherra veiti svokölluð landbúnaðaverðlaun til einstaka bænda eða býla sem þykja skara fram úr á ýmsum sviðum íslensks landbúnaðar. Þau voru fyrst veitt 1997 og er þetta því í 13. sinn sem þau eru veitt við setningu Búnaðarþings.
Landbúnaður er um margt sérstæð atvinnugrein. Engin störf eru unnin í nánari tengslum við landið og náttúru þess en störf bóndans. Enginn atvinnuvegur hefur meiri þýðingu fyrir varðveislu byggðar í landinu en búskapurinn í víðasta skilningi.
Fátt er mikilvægara til að varðveita byggð og lífvænleg samfélög í sveitunum en fjölbreytni í búskapnum og öðrum landsnytjum. Í þessu tilliti eru allir frumkvöðlar, þeir sem koma auga á nýja möguleika og hafa áræði og dugnað til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd byggðunum og samfélaginu öllu mikils virði.
Þau sem hljóta verðlaunin nú eru einmitt úr þeim hópi og valin sem fulltrúar þeirra. Það er einmitt rík ástæða til að vekja athygli á þessu nú og þeirri staðreynd að landbúnaður og atvinnulíf sveitanna hefur stöðugt orðið fjölþættara þó að enn þurfi betur að gera.
Verðlaunagripina sem hafa verið eins til allra verðlaunaþega eru hönnuð og smíðuð af Ívari Þ. Björnssyni gullsmið. Þar gefur að líta útskorið Íslandskort úr silfri á íslenskri steinplötu. Áletrað er nafn verðlaunaþega.
Holtssel í Eyjafirði
Vorið 1911 hófu búskap í Holtseli Guðrún Leósdóttir og Eggert Jónsson. Árið 1940 tók einkadóttir þeirra Svanhildur Eggertsdóttir og hennar maður, Egill Halldórsson við búinu keyptu jörðina og bjuggu í Holtseli til 1980.
Í Holtseli búa nú Guðrún dóttir Egils og Svanhildar og maður hennar Guðmundur Jón Guðmundsson. Jörðin er í þeirra eigu og telur bú þeirra um 50 kýr, sem gefa af sér um 300.000 lítrar af mjólk á ári, tæplega 6000 lítrar að meðaltali á kú.
Auk hefðbundinnar heyframleiðslu er stunduð þar kornrækt og stefnt að því að auka hana en frekar. Þá er hafin ræktun skjólbelta með það að markmiði að auka skjól fyrir gripina.
Á jörðinni er auk íbúðarhúss, lítið íbúðarhús fyrir starfsfólk, vélageymslur, hesthús og fjós fyrir um 120 nautgripi. Nú nýlega lauk umfangsmiklum breytingum á fjósi og hlöðu í Holtsseli. Settir voru upp legubásar fyrir kýrnar, hlöðu breytt í gjafaaðstöðu og settir legubásar fyrir geldneyti. Dýnur eru í legubásunum og eru þær með kodda fyrir kýrnar. Gangsvæðið í átplássinu er með gúmmídúk á gólfi.Ábúendur fluttu sjálf inn allar innréttingar og steinbita í flór ásamt fleiru, m.a. náttúruefni til fóðurgerðar, þreskivélar og milligerði.
Til staðar er heilfóðurvagn sem blandar fóðrið og matar á færiband sem skammtar hverri hjörð fyrir sig, - mjólkandi kúm, geldneytum og stálpuðum kvígum. Blandað er saman hálmi, rýgresi, byggi og ertublöndu, melassa, kjarnfóðri og öðru sem til þarf í gott heilfóður og er Holtsbúið trúlega eitt af þeim fyrstu til að blanda og gefa heilfóður.
Holtselsbúið er e.t.v. þekktast fyrir framleiðslu og sölu á rjómaísnum Holtsels-Hnoss en hægt er að velja á milli 400 mismunandi uppskrifta við ísgerðina. Þá hefur hugmyndaflugið einnig fengið að ráða og verið gerður ís úr bjór (Kalda) skyri og jógúrt með hundasúrubragði. að ógleymdum ís fyrir sykursjúka.
Í Holtseli er opið kaffihús og ísbar. Kýrnar ganga frjálsar um úti og velja á milli ferskrar beitar og heilfóðurblöndu úr fjósinu. Landnámshænur ganga um frjálsar og heimiliskettirnir heilsa gjarna upp á gesti.
Í Holtseli hefur verið sýnt fram á að hægt er að reka hefðbundinn landbúnað á snyrtilegan og jákvæðan hátt bæði gagnvart neytandanum, náttúrunni og dýrunum og að hægt er að vinna eftirsótta hágæða vöru úr íslensku hráefni og skapa ný störf á atvinnusvæði sem ein og önnur hefur þörf fyrir nýsköpun.
Fyrir dugnað, framtakssemi og nýsköpun í landbúnaði er hjónun Guðrúnu Egilsdóttur og Guðmundi Jóni Guðmundssyni Holtseli veitt landbúnaðarverðlaun 2009 og bið ég þau að ganga hingað upp til mín og veita þeim viðtöku.
Seljavellir í Nesjum.
Hjónin Egill Jónsson og Halldóra Hjaltadóttir stofnuðu nýbýlið Seljavelli úr landi Árnaness í Nesjum. Í fyrstu var land býlisins um 50 hektarar en síðan hefur verið keypt meira land, stærð jarðarinnar er í dag 250-300 hektarar.
Byrjað var að byggja íbúðarhús 1955 og flutt í það árið eftir. Árin þar á eftir voru byggð hlaða, fjós og fjárhús. Fyrstu búskaparár Egils og Halldóru gengdi Egill einnig starfi héraðsráðunauts Búnaðarsambands A- Skaftfellinga, alls í 20 ár.
Alla tíð hefur verið stunduð kartöflurækt á Seljavöllum og einnig töluverð gulrófnarækt á árum áður en rófnarækt er nú einungis stunduð lítils háttar. Árið 1975 var byggt 250 m2 kartöfluhús.
Árið 1978 stofnuðu Egill og synir hans Hjalti og Eiríkur félagsbú. Eftir að Egill var kjörin á Alþingi 1979 færðist daglegur rekstur yfir á bræðurna þó svo að Egill og Halldóra væru ætíð i búskapnum þegar tækifæri gáfust frá þingstörfum.
Búskapurinn jókst jafnt og þétt. Kartöfluræktin stækkaði mikið og farið var að þvo og pakka kartöflum í neytenda umbúðir á miðjum níunda áratugnum. Ennfremur jókst mjólkurframleiðslan á þeim tíma.
Árið 1982 var byggt geldneytafjós fyrir framan fjósið og reistur heymetisturn 1985.
Árið 1999 var rekstrinum skipt í tvær sjálfstæðar rekstrareiningar, annars vegar kartöfluframleiðslu sem er í eigu og höndum hjónanna Hjalta Egilssonar og Birnu Jensdóttur og hins vegar mjólkurframleiðslu sem er í eigu og umsjá hjónanna Eiríks Egilsson og Elínar Oddleifsdóttur.
Í framhaldi af því byggðu Hjalti og Birna nýtt 600 m2 kartöfluhús. Í því er geymsla og pökkun en einnig aðstaða til að forsjóða kartöflur í neytendapakkningar. Garðlönd hafa verið endurskipulögð með tilliti til ræktunar skjólbelta og er nú stærsti hluti innann skjólbelta og einnig vökvunar og frostvarnarbúnaður á um ca 5 ha. Hinn seinni ár hefur sumarsala á nýjum kartöflum skipað töluverðan sess í rekstrinum og eru um 6 ha settir undir plast. Heildar uppskera hin seinni ár hefur verið um 400 tonn.
Árið 2003 keyptu Eiríkur og Elín helming af kúm og kvóta foreldra Elínar, er þau brugðu búi, og breyttu þá fjárhúsunum í lausagöngu fjós. Árið 2005 byggðu þau nýtt Límtrés fjós með mjaltaþjóni, fyrir 69 kýr. Árið 2007 innréttuðu þau svo gamla fjósið með legubásum fyrir 46 kálfa.
Samhliða þessari aukningu á bústofni hefur eðlilega nýræktun og endurræktun túna fyllt í kjölfarið, ásamt kornrækt í u.þ.b. 10 hekturum.
Alls eru nú rúmlega 200 nautgripir á Seljavöllum og kartöflur eru ræktaðar í rúmlega 20 hekturum.
Samanlögð ársframleiðsla á Seljavöllum eru um 800 tonn af mjólk, kartöflum og kjöti.
Fyrir dugnað, framsýni og myndarskap er Seljavöllum veitt landbúnaðarverðlaun 2009 og bið ég þau Hjalta Egilsson og Birnu Jensdóttur, Eirík Egilsson og Elínu Oddleifsdóttur að koma hingað upp til mín og veita verðlaununum viðtöku. Þá væri mér mikil ánægja ef Halldóra Hjaltadóttir, móðir þeirra bræðra vildi einnig koma hingað upp með þeim sonum sínum og tendadætrum.
Akursel í Öxarfirði
Við bakka Brunnár í Öxarfirði er býlið Akursel sem sérhæft hefur sig í framleiðslu á lífrænt ræktuðum gulrótum utandyra.
Kann það að virka nokkuð sérstakt svo norðarlega sem jörðin er, en með því að nýta gæði jarðarinnar, m.a. volgan jarðveg að hluta til að ógleymdu því að leggja einstaka alúð og umhyggju í verkið hefur ábúendunum þar, Sigurbjörgu Jónsdóttur og Stefáni Gunnarssyni tekist ætlunarverk sitt. Framleiðsla þeirra er löngu landsþekkt og viðurkennd hágæðavara.
Sigurbjörg og Stefán hófu garðyrkjubúskap á jörðinni Dyrhólum í Mýrdal vorið 1980. Árið 1994 fékk býli þeirra lífræna vottun á hluta afurða sinna. Var það í fyrsta sinn sem slík vottun átti sér stað hérlendis. Fljótlega uppúr því var svo öll framleiðsla búsins lífrænt vottuð. Blómstraði starfsemi þessi mjög og var bú þeirra um tíma stærsta grænmetisbú landsins, með milli 10 og 20 tegundir í ræktun.
Ein saga er til um sannfæringu húsbóndans fyrir gildi lífrænnar ræktunar: Á búi þeirra að Dyrhólum í Mýrdal reistu þau nokkur gróðurhús sem voru 330m löng hvert um sig. Fullyrti Stefán að gengju menn sjötugir inn um vesturendann korteri fyrir sólarupprás og ætu eina lífræna gulrót á hverjum hundrað metrum kæmu menn sextugir út um austurendann þar sem morgunsólin tæki brosandi á móti þeim í tvennum skilningi.
Árið 1999 söðluðu þau hjón um og fluttu þau Sigurbjörg og Stefán ásamt dóttur sinni Söru norður í Öxarfjörð. Þar var lítil jörð – Akursel sem staðið hafði í eyði í mörg ár. Stefán og Sigurbjörg sáu á jörðinni tækifæri, - jarðhita og frjóan sendinn jarðveg. Yfir sumartímann getur verið nokkuð þurrviðrasamt þar nyrðra og til að bæta þar ú skák hafa þau vökvað garðlöndin með grámórauðu sumarvatninu úr Jökulsá á Fjöllum, eftir að Dettifoss hefur hamrað í það orkunni.
Öll hús á jörðinni voru að lotum komin og bjuggu þau fyrstu árin á Kópaskeri sem er eina 20 km frá Akurseli. Snemma var risið á fætur og seint til náða gengið. Langur vinnudagur, elja og ást á verkefninu gaf góða uppskeru að kveldi.
Nú hafa þau bæði byggt upp og endurbætt húsakostinn, flutt í Akursel og bú þeirra og dugnaður vekur aðdáun og athygli.
Framleiðslan eru lífrænar gulrætur og undanfarin ár hefur í Akurseli verið rekið stærsta gulrótabú landsins. Varan gengur svo undir nafninu Akurselsgulrætur, nema hjá túristum sem frétt hafa af þessari vökvun þá heita þetta Dettifossgulrætur.
Sigurbjörg og Stefán ásamt dótturinni Söru hafa unnið einstakt afrek og sýnt fram á hvað hægt er að gera sé viljinn fyrir hendi.
Fyrir bjartsýni, dugnað og nýsköpun í landbúnaði hljóta þau hjónin Sigurbjörg Jónsdóttir og Stefán Gunnarsson í Akurseli landbúnaðarverðlaun 2009 og bið ég þau að koma og taka á móti verðlaununum.
Fyrir dugnað, framtakssemi og nýsköpun í landbúnaði er hjónun veitt landbúnaðarverðlaun 2009 og bið ég þau að ganga hingað upp til mín og veita þeim viðtöku.