Hoppa yfir valmynd
2. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðist gegn vanda heimilislausra

Hanna Birna og Ásta Ragnheiður við undirritun samnings
Hanna Birna og Ásta Ragnheiður við undirritun samnings

Tuttugu heimilislausum í Reykjavík hefur verið tryggt húsnæði, þjónusta og félagslegur stuðningur samkvæmt samningi sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, hafa undirritað. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun leggja til 28,5 milljónir króna á hverju ári næstu þrjú árin, samtals 85,6 milljónir króna, til verkefnisins.

Samningurinn tryggir þeim sem glímt hafa við áfengis- og vímuefnaneyslu, eru hættir neyslu en eiga við margháttaða félagslega erfiðleika að stríða, aðstoð við að aðlagast samfélaginu á ný. Þjónustan felur í sér húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu þannig að íbúar geti í framhaldinu búið sjálfstætt og tekið virkan þátt í samfélaginu án vímugjafa. SÁÁ útvegar húsnæði, annast rekstur þess og veitir umræddum hópi þá þjónustu sem hér um ræðir.

Við undirritun samningsins sagðist Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, fagna því að hann væri nú í höfn. Ráðherra sagði „að samningurinn markaði tímamót þar sem lengi hefur verið brýn þörf fyrir aðstoð af þessu tagi, við fólk sem á að baki margar áfengis- og vímuefnameðferðir en er ekki fært um að búa á eigin vegum“.

Vegna samningsins hefur þegar verið gengið frá samstarfi SÁÁ og Reykjavíkurborgar til þriggja ára. Nú þegar eru tíu manns komnir í hús og njóta þjónustunnar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta