Hoppa yfir valmynd
6. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 5. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar kemur fram að tekin verði upp full endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu við íbúðarhúsnæði.

Í samræmi við það hefur fjármálaráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Samkvæmt frumvarpinu skal á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. júlí 2010 endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess.

Byggjendur íbúðarhúsnæðis fá í dag endurgreidd 60% af þeim virðisaukaskatti sem þeir greiða af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds. Skattstjóri, í því umdæmi þar sem umsækjandi er skráður með lögheimili, afgreiðir endurgreiðslubeiðnir þessar. Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af þessu tagi var fyrst lögfest árið 1989.

Til ársins 1996 var virðisaukaskattur vegna vinnu manna á byggingarstað og vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald endurgreiddur að fullu. Sú heimild var lækkuð niður í 60% árið 1996 og var sú breyting rökstudd með vísan í breytingar á vörugjaldslögum sem orsökuðu skerðingu á tekjum ríkissjóðs. Endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði var lækkað til að mæta þessu tekjutapi ríkisins.

Markmiðið með frumvarpinu er að koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna við svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði. Hækkað endurgreiðsluhlutfall hvetur til framkvæmda en það er mikilvægt þegar atvinnuástandið er jafnbágt og nú og horfur eru á á næstunni, m.a. í byggingargeiranum. Auk þess er almennt litið svo á að hækkun endurgreiðslunnar sé líkleg til að stuðla að minni undanskotum frá skatti og þar með minnka svarta atvinnustarfsemi. Að sama skapi getur hækkunin dregið úr greiðslum vegna atvinnuleysisbóta vegna aukinna framkvæmda.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta