Hoppa yfir valmynd
6. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lækkun ferðakostnaðar ráðherra og starfsmanna ríkisins á ferðalögum erlendis

Fréttatilkynning nr. 13/2009

Fjármálaráðherra hefur beitt sér fyrir lækkun ferðakostnaðar með því að beina þeim tilmælum til ferðakostnaðarnefndar að lækka dagpeninga starfsmanna ríkisins á ferðalögum erlendis. Jafnframt hefur ráðherra ákveðið að breyta sérstökum ákvæðum um endurgreiddan ferðakostnað og dagpeninga til ráðherra og æðstu embættismanna ríkisins.

Með hliðsjón af tilmælum fjármálaráðherra ákvað ferðakostnaðarnefnd þann 27. febrúar sl. að lækka dagpeningagreiðslur til starfsmanna ríkisins á ferðalögum erlendis um 10% frá 1. mars 2009. Ákvörðun nefndarinnar er í anda aukins aðhalds í ríkisrekstri, en jafnframt liður í að skapa stofnunum og ríkisstarfsmönnum svigrúm til þess að sinna erlendu samstarfi sem talið er nauðsynlegt vegna alþjóðlegra skuldbindinga þar um.

Fjármálaráðherra gerði í dag breytingar á reglum um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins. Reglurnar kveða á um greiðslufyrirkomulag vegna ferðalaga ráðherra og starfsmanna ríkisins innanlands og erlendis. Breytingar eru gerðar á sérstökum ákvæðum um greiðslu dagpeninga og endurgreiddan kostnað ráðherra, ráðuneytisstjóra, aðstoðarmanna ráðherra, biskups, ríkisendurskoðanda, hæstarréttardómara, ríkissáttasemjara, forsetaritara og sendiherra. Með breytingunum munu dagpeningagreiðslur til ráðherra og forseta hæstaréttar skerðast töluvert. Auk þess eru afnumin sérstök ákvæði um dagpeninga og endurgreiddan kostnað fyrrgreindra embættismanna. Um þá gilda nú sömu reglur og um aðra starfsmenn ríkisins, þ.e. reglur um greiðslu almennra dagpeninga skv. ákvörðun ferðakostnaðarnefndar. Jafnframt er afnumin heimild til þess að greiða mökum ráðherra dagpeninga þegar þeir eru í för með ráðherra á ferðalögum erlendis.

Reglur um ferðakostnað vegna ferðalaga á vegum ríkisins er að finna á vef fjármálaráðuneytisins.

Fjármálaráðuneytinu, 6. mars 2009

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta