Úttektir á sjálfsmatsaðferðum framhaldsskóla 2007-2008
Með setningu laga um framhaldsskóla árið 1996 var framhaldsskólum gert skylt að innleiða aðferðir við að meta starf sitt. Menntamálaráðuneytinu bar síðan á fimm ára fresti að gera úttektir á sjálfsmatsaðferðum skólanna til að ganga úr skugga um að aðferðirnar uppfylltu viðmið aðalnámskrár um sjálfsmat og að þær styddu umbætur í skólastarfi. Fóru þessar úttektir fram á árunum 2002-2003.
Ný lög um framhaldsskóla frá 2008 gera einnig ráð fyrir að framhaldsskólar meti með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfsins. Skulu framhaldsskólar birta opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur. Lögin gera ráð fyrir að menntamálaráðuneytið afli upplýsinga um framkvæmd innra mats í framhaldsskólum.
Önnur umferð úttekta á sjálfsmatsaðferðum framhaldsskóla hófst vorið 2007 í samræmi við lagaákvæði frá 1996 og lauk í desember 2008. Alls voru gerðar úttektir á sjálfsmatsaðferðum 29 skóla. Utanaðkomandi aðilum var falin framkvæmd úttektanna að undangenginni auglýsingu.
Úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla byggir m.a. á gögnum frá viðkomandi skóla, svo sem sjálfsmatsskýrslu, heimsóknum í skólann og viðtölum við stjórnendur, kennara, aðra starfsmenn og nemendur eftir því sem við á. Þau viðmið sem liggja til grundvallar við mat á sjálfsmatsaðferðunum eru skilgreind í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla frá 2004. Þar kemur fram að sjálfsmatið skuli m.a. vera formlegt, altækt, samstarfsmiðað, umbótamiðað, árangursmiðað og opinbert.
Niðurstöður úttektanna frá 2007-2008 sýna að af 29 framhaldsskólum höfðu 23 skólar fullnægjandi sjálfsmatsaðferðir. Þessir skólar voru:
Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Fjölbrautaskóli Suðurnesja , Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Flensborgarskólinn, Framhaldsskólinn í Austur- Skaftafellssýslu, Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Iðnskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn við Sund, Verkmenntaskóli Austurlands, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Verzlunarskóli Íslands.
Í fjórum skólum töldust sjálfsmatsaðferðir fullnægjandi að hluta. Þeir voru: Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Menntaskólinn að Laugarvatni, Menntaskólinn á Ísafirði og Menntaskólinn í Reykjavík.
Tveir skólar töldust ekki uppfylla viðmið um fullnægjandi sjálfsmatsaðferðir: Iðnskólinn í Hafnarfirði og Menntaskólinn Hraðbraut.
Þegar bornar eru saman niðurstöður úttekta á sjálfsmatsaðferðum úr fyrri umferð úttektanna árin 2002-2003 við seinni umferð 2007-2008 kemur í ljós árangur vinnu við sjálfsmat í framhaldsskólum hefur umtalsvert batnað. Í úttektunum árin 2002-2003 voru sjálfsmatsaðferðir sjö framhaldsskóla metnar fullnægjandi, í öðrum sjö skólum töldust þær fullnægjandi að hluta og í 15 skólum ófullnægjandi.