Ráðning fjármálaráðgjafa til að stýra viðræðum við kröfuhafa bankanna
Fréttatilkynning nr. 14 /2009
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma samningaviðræðum milli nýju bankana sem stofnaðir voru eftir hrun gömlu bankann og kröfuhafa gömlu bankanna í fastan farveg.
Fyrir hönd ríkisins sem eiganda nýju bankanna, mun fjármálaráðuneytið leiða og samræma þessar viðræður. Fjármálaráðuneytið hefur ráðið Þorstein Þorsteinsson, rekstrarhagfræðing og fyrrverandi framkvæmdastjóra við Norræna fjárfestingarbankann, Búnaðarbanka Íslands og Lánasjóð sveitarfélaga til að fara fyrir þessum viðræðum fyrir hönd ráðuneytisins. Þá hefur ráðuneytið einnig ráðið breska ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint sér til aðstoðar við verkefnið en fyrirtækið hefur víðtæka reynslu af verkefnum af þessum toga.
Markmið ríkisstjórnarinnar í þessum samningaviðræðum eru meðal annars:
- Að tryggja jafna og réttláta meðferð kröfuhafa í öllum þremur gömlu bönkunum.
- Að beita viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum við samningaviðræðurnar og uppgjörið.
- Að tryggja rekstrargrundvöll bankanna þannig að þeir taki ekki á sig meiri skuldbindingar en þeir ráða við vegna yfirtöku eignanna.
- Að taka upp viðræður og samvinnu við skilanefndir gömlu bankanna og ráðgjafa þeirra og taka tillit til sjónarmiða kröfuhafa eftir því sem unnt er. Lögð verði áhersla á skilvirka og réttláta miðlun upplýsinga milli aðila í samningaferlinu.
- Að leitast við að finna lausnir sem kröfuhafar sætta sig við og greiða þar með fyrir aðgangi ríkissjóðs og nýju bankana að alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
Tvö erlend fyrirtæki, Deloitte og Oliver Wyman, eru nú að leggja mat á þær eignir sem nýju bankarnir taka yfir og munu samningaviðræðurnar milli nýju og gömlu bankanna taka mið af niðurstöðum þess mats. Þó að það liggi ekki fyrir er undirbúningur viðræðnanna þegar hafinn.
Fjármálaráðuneytinu, 10. mars 2009