Forsætisráðherra ávarpar Viðskiptaþing - Hvetur forsvarsmenn viðskiptalífsins til að horfast í augu við ábyrgð sína
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands í dag. Forsætisráðherra sagði meðal annars í ræðu sinni að stjórnvöld væru nú komin með miklu víðtækara hlutverk í efnahagslífinu en staðið hefði til og miklu stærra hlutverk en ríkissjóður ætti að hafa. Forsætisráðherra vék jafnframt að ábyrgð á hruni fjármálakerfisins og sagði:
,,Ég trúi því að við sem erum stödd hér í dag gerum okkur fulla grein fyrir því að þeir sem teljast til viðskiptalífsins bera ríka ábyrgð á því hvernig komið er. Ef til vill ríkari ábyrgð en nokkur annar einstakur aðili hér á landi, enda þótt nú verði allir að líta í eigin barm og horfast í augu við hvað betur hefði mátt fara. Vissulega bera stjórnvöld hér líka ábyrgð. Þau hefðu átt að grípa inní, setja reglur og tryggja að ekki færi allt í óefni. Vissulega brugðust eftirlitsstofnanir og bera mikla ábyrgð á því að svo fór sem fór. Ekkert af þessu réttlætir hins vegar þau vinnubrögð og þær aðferðir sem beitt var af hálfu athafnamanna."
Forsætisráðherra sagðist telja að endurreisn íslensks efnahagslífs sé hafin og sagðist sannfærð um að sveigjanleiki í atvinnulífi muni koma þjóðinni fyrr í gegnum efnahagslægðina en öðrum þeim þjóðum sem glíma við svipaðan vanda. Hún fór jafnframt yfir þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gert í efnahagsmálunum og til endurrreisnar bankakerfisins og lýsti því að mikilvægar áfangar á því sviðinu væru innan seilingar. Nefndi hún þar sérstaklega að samningum við erlenda lánadrottna gömlu bankanna verði lokið í maí og stofnun sérstaks eignarhaldsfélags á vegum ríkisins sem fara mun með hlut ríkisins í bönkunum þremur og hlut ríkisins í eignaumsýslufélagi sem tekur yfir illa stödd en mikilvæg fyrirtæki frá bönkunum. Stofnun félagsins og starfsemi verður liður í að tryggja samræmd og fagleg vinnubrögð annars vegar en hins vegar eðlilega fjarlægð stjórnmálamanna og framkvæmdavalds frá rekstri bankanna.
Forsætisráðherra ítrekaði þá skoðun sína að aðeins með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru yrði stöðugleiki íslensks efnahagslífs tryggður til langframa og gagnrýndi jafnframt rýran hlut kvenna við stjórn fyrirtækja og sagði samfélaginu nauðsyn að þau hlutföll breyttust.
Ráðherrann lýsti jafnframt þeirri skoðun sinni að stjórnvöldum bæri að styðja við atvinnulífið með því fyrst og fremst að tryggja heilbrigt efnhagslegt umhverfi og hét Viðskiptaþingi stuðningi sínum sem forsætisráðherra við uppbyggingu frjálslynds velferðarsamfélags, sem ,,er reiðubúið að horfa af fullri alvöru til Evrópusambandsins og upptöku evru."
Hjálagt fylgir ræðan í heild sinni:
Reykjavík 12. mars 2009